Þriðjudagur 12. febrúar 2002

43. tbl. 6. árg.

SIMIStjórn og stjórnarandstaða virðast sammála um að selja ekki Landssímann nema „fyrir gott verð“. Þetta er nýlunda – a.m.k. af hálfu ríkisstjórnarinnar – þar sem áður hefur verið talið að helsta markmið einkavæðingar væri að draga úr umsvifum ríkisins en ekki auka eyðslufé þess. Þessi nýja stefna er afleit og ekki að undra þótt sala ríkisfyrirtækja gangi hægt um þessar mundir ef það er megin markmið hennar að auka tímabundnar tekjur ríkissjóðs.

Það ætti raunar þvert á móti að vera markmið að tekjur ríkissjóðs aukist ekki verulega vegna einkavæðingar. Slíkur tímabundinn tekjuauki kallar bara á óskalista frá þingmönnum og ekki síður hinum eyðslusömu sveitarstjórnarmönnum um framlög til ýmissa gæluverkefna eins og „byggðamála“. Mikil tekjuaukning ríkissjóðs á síðustu árum leiddi þannig til þess að þingmenn héldu óhætt væri að senda stóra flokka manna í launað frí á kostnað ríkisins svo mánuðum skiptir á hverju ári til eilífðar og launahækkanir opinberra starfsmanna fóru úr böndunum.

Markmið einkavæðingar er þvert á móti að draga úr umsvifum hins opinbera. Sjálf sala ríkisfyrirtækjanna þ.e. hvaða aðferð er nákvæmlega notuð og hvaða verð fæst er aukaatriði svo lengi sem reglurnar eru skýrar og allir geti boðið í. Aðalatriðið er að færa rekstur þessara fyrirtækja úr höndum stjórnmálamanna, sem bera enga ábyrgð á rekstrinum og finna ekki fyrir röngum ákvörðunum, til einkaaðila sem þurfa að taka afleiðingum ákvarðana sinna í afkomu fyrirtækisins og gengi þess á hlutabréfamarkaði.