Mánudagur 11. febrúar 2002

42. tbl. 6. árg.

Þingmaðurinn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og varaþingmaðurinn Mörður Árnason eiga þann óvænta – en um leið ánægjulega – leik á þingi þessa dagana að beita sér fyrir auknum réttindum einstaklinga. Þau hafa lagt fram frumvarp um afnám gjalds á menn utan trúfélaga, en eins og kunnugt er hefur sá háttur verið hafður á hér á landi að þeir sem ekki vilja greiða til einhvers trúfélags sleppa ekki við skattgreiðsluna heldur greiða þess í stað til Háskóla Íslands. Í greinargerð með frumvarpinu segir að gert sé ráð fyrir að 76 milljónir króna renni til Háskólans á þessu ári frá þeim sem standa utan trúfélaga.

Sæmundur nýtur góðs af þeim sem vilja ekki í söfnuð.
Sæmundur nýtur góðs af þeim sem vilja ekki í söfnuð.

Í frumvarpinu er aðallega vísað til þess að hér á landi ríki trúfrelsi og félagafrelsi og því sé þetta fyrirkomulag gjaldtökunnar óeðlilegt. Þetta má að nokkru leyti til sanns vegar færa. Það að einstaklingum utan trúfélaga sé gert að greiða sömu upphæð til Háskólans og þeir annars greiddu til trúfélags þýðir ekki að þeir njóti alls ekki trúfrelsis, en segja má að menn þurfi að greiða fyrir það frelsi og það verður að teljast óeðlilegt. Þá er einstaklingi ekki endilega fyrirmunað að nýta sér rétt sinn til að standa utan félags vegna núverandi fyrirkomulags, en þó er ekki eðlilegt að sá réttur kosti greiðslu til Háskólans.

Ef litið er þeim augum á málið að verið sé að skattleggja sérstaklega þá sem ekki vilja vera í trúfélagi, sést greinilega hversu óeðlileg núverandi gjaldtaka er. Það að taka ákveðinn hóp manna út úr og gera honum og engum öðrum að greiða tiltekinn skatt er nokkuð sem ekki getur gengið og það eru sterkustu rökin með því að frumvarpið verði samþykkt. Að öðrum kosti má allt eins búast við að fjárhagsstaða Sinfóníuhljómsveitarinnar verði bætt með því að rukka þá sérstaklega sem ekki greiða félagsgjöld í eitthvert íþróttafélag.

En þó rétturinn til að standa utan félaga sé ekki sterkustu rökin fyrir samþykkt umrædds frumvarps er hann afar mikilvægur og myndi réttlæta annað frumvarp. Það frumvarp myndi fjalla um rétt manna til að standa utan stéttarfélaga, en nú er það svo að kjósi menn að vera ekki í stéttarfélagi eru þeir engu að síður neyddir til að greiða til félagsins. Ákvæði stjórnarskrárinnar um félagafrelsi er því hjóm eitt þegar kemur að stéttarfélögum. Frumvarp um rétt manna til að standa utan stéttarfélaga og að þurfa ekki að greiða til þeirra er því ekki síður brýnt en fyrirliggjandi frumvarp Marðar og Ástu Ragnheiðar og þess er vart langt að bíða að þessir djörfu baráttumenn fyrir réttindum manna til að standa utan félaga leggi slíkt frumvarp fyrir Alþingi.