Helgarsprokið 10. febrúar 2002

41. tbl. 6. árg.

Hugrekki í stjórnmálum tekur á sig ýmsar myndir og er litið misjöfnum augum. Almennt mun þó samstaða um, að lofsvert hugrekki felist í því að stjórnmálamenn segi skoðun sína umbúðalaust, hvort sem það er til vinsælda fallið eða ekki. Stjórnmálamenn sem búa yfir slíku hugrekki vekja oft aðdáun fyrir stefnufestu og hreinskilni, en gjalda þess hins vegar stundum í kosningum. Þannig má nefna fjölmörg dæmi úr sögunni um hugrakka stjórnmálamenn, sem af sannfæringu börðust fyrir málstað sínum, gáfu ekkert eftir en náðu aldrei stuðningi í kosningum til að koma stefnumálum sínum í framkvæmd. Hins vegar má jafnframt benda á dæmi um hið gagnstæða, þar sem stjórnmálamenn börðust ófeimnir fyrir sjónarmiðum sem óvinsæl voru í upphafi, en náðu með sannfæringarkrafti og rökfestu að sannfæra kjósendur um réttmæti málstaðar síns.

„…Halldór var ekki sömu skoðunar fyrir nokkrum árum, þegar Framsóknarflokkurinn fór fram í kosningum undir slagorðunum: XB ekki EB, og þegar stór hluti flokksins barðist hatrammri baráttu gegn aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu.“

Sumir íslenskir fjölmiðlamenn hafa að undanförnu borið lof á tvo stjórnmálamenn fyrir að sýna sérstakt hugrekki í umræðum um Evrópumál. Annars vegar er um að ræða Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar og hins vegar Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formann Framsóknarflokksins. Össur hefur hrundið af stað mikilli umræðu um aðild Íslands að Evrópusambandinu innan flokks síns og sagt að Evrópumálin kunni að verða kosningamál í næstu Alþingiskosningum. Halldór hefur ekki gengið eins langt og látið nægja að segja að Íslendingar þurfi að ræða Evrópusambandsaðild fordómalaust og hafa alla möguleika opna. Ýmsum, sem um stjórnmál fjalla í fjölmiðlum, finnst þetta vera yfirlýsingar, sem beri vott um mikið pólitískt hugrekki. Aðrir staldra hins vegar við og spyrja: Hver eru nýmælin? Í hverju birtist hugrekkið?

Um hugrekki Össurar er það að segja, að verði niðurstaða Samfylkingarinnar sú næsta haust, eftir meira en árs umfjöllun og umræður innan flokksins, að Ísland eigi að sækja um aðild að ESB, þá hefur Samfylkingin komist á sama reit og Alþýðuflokkurinn var á í kosningunum 1995. Þá barðist flokkurinn eindregið fyrir því að Ísland sækti um aðild. Þessi sami Össur var þá í framboði fyrir Alþýðuflokkinn og einn ákafasti talsmaður þessa sjónarmiðs. Ef að líkur lætur, verður Össur því talsmaður sömu sjónarmiða í næstu Alþingiskosningum og hann var fyrir átta árum og má velta því fyrir sér hvort slíkt beri vott um sérstakt pólitískt hugrekki. Að vísu verður að geta þess, til þess að gæta allrar sanngirni, að hvorki Össur né Samfylkingin sem stjórnmálaflokkur, þorði að halda þessu merki á lofti í kosningunum 1999, og er það sjálfstæð spurning, hvort það hafi borið vott um mikið hugrekki.

Um Halldór Ásgrímsson gegnir örlítið öðru máli. Hann hefur einungis lýst því yfir að hann telji rétt að Íslendingar ræði aðildarumsókn fordómalaust og haldi öllum möguleikum opnum. Spyrja má hvort afstaða af því tagi krefjist mikils hugrekkis eða hvort yfir höfuð megi búast við öðru af framsóknarmanni en að hann vilji halda öllum möguleikum opnum. Það verður að vísu að geta þess að Halldór var ekki sömu skoðunar fyrir nokkrum árum, þegar Framsóknarflokkurinn fór fram í kosningum undir slagorðunum: XB ekki EB, og þegar stór hluti flokksins barðist hatrammri baráttu gegn aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu. Hafi Halldór skipt um skoðun síðan, sem gæti borið vitni um ákveðið hugrekki, og ef raunin er sú að afstaða hans hafi í grundvallaratriðum breyst, af hverju segir hann það ekki hreint út í staðinn fyrir að tauta ofan í bringuna um það að við þurfum að ræða málin fordómalaust og halda öllum möguleikum opnum?

Við þetta má bæta, að ef marka má skoðanakannanir er hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu langt frá því að vera óvinsælt mál meðal kjósenda. Af þeim má ráða að talsvert fleiri séu ýmist mjög eða fremur fylgjandi aðildarumsókn heldur en sem nemur samanlögðu fylgi Framsóknarflokks og Samfylkingar. Þeir Halldór og Össur væru því ekki beinlínis að synda gegn straumnum með því að taka aðildarumsókn upp í stefnuskrár flokka sinna, heldur þvert á móti að gera að sínu baráttumáli sjónarmið, sem á fylgi langt út fyrir raðir flokka þeirra. Í ljósi þess eru yfirlýsingar þeirra nú ekkert sérstakur vitnisburður um pólitískt hugrekki.

Loks má benda á, fyrst pólitískt hugrekki í Evrópumálum er hér á dagskrá, að enginn fjölmiðlamaður, álitsgjafi eða kaffihúsaspekingur, hefur talið það sérstakt pólitískt hugrekki af formanni Sjálfstæðisflokksins og öðrum helstu forystumönnum hans að halda hvað eftir annað fram þeirri skoðun sinni að aðild að ESB henti ekki Íslendingum miðað við núverandi aðstæður eða í fyrirsjáanlegri framtíð. Þetta er þó skýr og eindregin afstaða og alveg jafn umdeild eins og sjónarmið stuðningsmanna ESB, hvað þá þeirra sem vilja bara ræða málin fordómalaust. Spyrja má hvort með þessu birtist afstaða atvinnuálitsgjafanna til Evrópusambandsins sem slíks eða afstaða þeirra til forystu Sjálfstæðisflokksins. Kannski sýnir þetta best að mönnum finnst pólitískt hugrekki og skýr stefnumörkun ekki fréttnæm þegar hún kemur frá forystu Sjálfstæðisflokksins en rjúka hins vegar upp til handa og fóta ef þeir fá á tilfinninguna að einhverrar stefnu sé yfir höfuð að vænta úr herbúðum Samfylkingar eða Framsóknar.