Laugardagur 9. febrúar 2002

40. tbl. 6. árg.

Frumvarp til laga um breytingar á áfengislöggjöfinni liggur nú fyrir Alþingi. Með frumvarpinu er lagt til að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins framselji einkaleyfi sitt til smásölu áfengis til verslana sem uppfylla ákveðin skilyrði, en ekki er gert ráð fyrir að ríkið loki verslunum sínum. Segja má að verði frumvarp þetta að lögum sé stigið varfærið en þó mikilvægt skref í þá átt að verslun með áfengi hér á landi hætti að vera undir stjórn hins opinbera og fari að lúta eðlilegum lögmálum. Með samþykkt frumvarpsins yrði fullorðnu fólki gert auðveldara að nálgast vinsæla neysluvöru sem engin réttmæt rök eru fyrir að reyna að hindra það í að verða sér úti um.

Fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis og þeirra þéttbýlisstaða á landsbyggðinni sem eru svo lánsamir að hafa náðarsamlegast hlotnast áfengisútsala myndi slík lagabreyting þýða aukin þægindi við áfengiskaupin. Fyrir aðra íbúa landsins, þ.e. þá sem búa þar sem ÁTVR hefur kosið að stunda ekki viðskipti, er hins vegar um meira en smávægileg þægindi að ræða. Vegna þeirra ólaga sem áfengislöggjöfin er þurfa sumir landsmenn að þola það að aka um langan veg hyggist þeir drekka rauðvín með sunnudagssteikinni, bjór með handboltaleiknum eða viskí með vindlinum. Þetta hefur sumum þótt sjálfsagt en aðrir líta svo á að fullorðið fólk eigi að mega gera hversdagslega hluti á borð við þessa án þess að aka langar leiðir vegna duttlunga afturhaldssamra sérvitringa.

Sem leiðir hugann að sjónvarpsþættinum Silfri Egils um síðustu helgi þar sem kunnur andstæðingur frjálslyndra viðhorfa, Ögmundur Jónasson alþingismaður, atti kappi við einn af flutningsmönnum frumvarpsins. Óhætt er að segja að jafnvel Ögmundur hafi sjaldan átt annan eins stórleik og í þessum þætti, slík var röksemdafærslan. Ögmundar taldi frumvarpið afleitt vegna þess að einkaaðilar myndu ekki standa sig og þjónusta yrði því verri en nú er og aðgengi að áfengi því lakara. Ögmundur hélt því fram án þess að blikna að ríkið gæti boðið lægra verð, meira úrval og almennt betri þjónustu en einkaaðilar. Með einokunarfyrirkomulagi ríkisins megi gera ódýrari stórinnkaup og halda þannig verði áfengis niðri. Um leið lýsti hann því að núverandi fyrirkomulag kæmi í veg fyrir að menn ættu of greiðan aðgang að áfenginu, sem væri æskilegt til að koma í veg fyrir of mikla drykkju.

Það þarf sumsé ekki að drekka áfengi til að hlutirnir fari að hringsnúast fyrir mönnum. Sumum nægir að tala um áfengið til að fara á hvolf.