Helgarsprokið 17. febrúar 2002

48. tbl. 6. árg.

Hvað á hið opinbera að ganga langt? Hvað á það að banna borgurunum að gera og hvað á það að láta afskiptalaust? Lengi hafa menn deilt um slíka hluti og ekki að ástæðulausu þegar á það er litið að hið opinbera setur sífellt fleiri og víðfeðmari reglur um ótrúlegustu hluti. Sumir segja að allir ættu að vera frjálsir orða sinna og gerða svo lengi sem þeir skaða ekki annað fólk með óréttmætum hætti. Aðrir vilja á hinn bóginn einnig takmarka frelsi og kjör fólks, beinlínis til að bæta hag einhverra annarra manna. Um þetta hafa menn lengi tekist á og má hér ef til vill geta þess að í fyrra gaf Andríki, útgáfufélag Vefþjóðviljans, út hálfrar annarrar aldar gamla bók franska hagfræðingsins Frédéric Bastiat, Lögin, þar sem mjög var fjallað um þessi sígildu álitamál. Ekki verður efni þeirrar bókar rakið hér og nú en þess í stað hugað að einu þeirra fjölmörgu sviða þar sem Vefþjóðviljanum þykir sem hið opinbera hafi gengið of langt. Allt of langt.

„Þá er beinlínis bannað að vera með eldhús sem er minna en 7 fermetrar að stærð. Og á eldhúsinu skal vera opnanlegur gluggi. Ef einhvern langar til að vera með minna eldhús – ja þá getur sá maður flutt úr landi. Hans yrði sennilega ekki saknað.“

Meirihluti landsmanna býr í eigin húsnæði og í flestum tilfellum er það húsnæði langstærsta eign viðkomandi einstaklings eða fjölskyldu. Flestir vilja að íbúð sín falli sem best að þörfum sínum og smekk og vilja vera húsbændur – eða húsmæður – á sínu heimili. Sennilega þykir flestum landsmönnum sjálfsagt og eðlilegt að húseigendur fái að ráða sem mestu um það hvernig íbúðir þeirra eru og hvað þar fer fram. Með sama hætti munu líklega fáir halda því fram að fólk eigi heimtingu á því að fá að skipta sér af annarra manna hýbýlum. En þrátt fyrir það þá hefur hið opinbera sett ýtarlegar reglur um íbúðir borgaranna, hvernig þær mega vera og ekki síður hvernig þær mega ekki vera. Ber hér sérstaklega að nefna svo kallaða byggingarreglugerð en þar úir allt og grúir í fyrirmælum um ótrúlegustu hluti og fátt sem hið opinbera virðist telja sér óviðkomandi þegar innanhússarkitektúr er annars vegar.

Í byggingarreglugerð nr. 441/1998 er semsagt kveðið á um eitt og annað og enginn, sem les þessa reglugerð, mun ímynda sér að hann búi í landi þar sem húsbyggjandi má sjálfur ráða hvers konar hús hann byggir sér. Fyrirmæli reglugerðarinnar eru fjölmörg og spurning hver skal nefna sérstaklega. Hér má til dæmis geta þess, að samkvæmt 65. gr. er skylt að hverju einasta íbúðarhúsnæði fylgi „leiksvæði barna á lóð“. Byggingarnefndir geta veitt undanþágu frá þessum fyrirmælum ef húsið er „utan íbúðarsvæða“ en að öðrum kosti er öllum landsmönnum bannað að reisa sér hús án þess að húsinu fylgi „leiksvæði barna“.

Ef einhvers staðar er maður sem vill reisa sér hús sem ekki myndi henta til þeirra nota sem því væri ætlað, þá ætti hann að hætta strax við þau undarlegu áform. Það er nefnilega bannað að reisa slíkt hús. Samkvæmt 77. gr. reglugerðarinnar er skylda að hús henti vel til væntanlegra nota! Og ef einhvern mann langar til að búa í húsi þar sem lofthæðin er til dæmis 2,4 metrar þá verður hann að finna sér annað land. Á Íslandi eru slík hús bönnuð. Samkvæmt 78. gr. byggingarreglugerðar má enginn maður reisa sér hús þar sem lofthæð í íbúðarherbergjum er minni en hálfur þriðji metri. Þó leyfir hið opinbera að meðalhæð í þakherbergjum og kvistherbergjum sé 2.2 metrar en setur það skilyrði að lofthæð sé að meðaltali 2,4 metrar „í að minnsta kosti þriðjungi herbergis í íbúðarhúsnæði.“

Vonandi heldur enginn að gluggar séu einkamál íbúðareigenda. Nei nei, ríkið hefur skoðun á gluggum. „Samanlagt ljósop glugga hvers herbergis skal ekki vera minna en sem svarar til 1/10 af gólffleti þess. Þó skulu gluggar íbúðarherbergja ekki vera minni en 1 m2. Sama á við um eldhús, nema þegar opið er milli stofu og eldhúss, þá reiknast stofa og eldhús (eldhúskrókur) sem eitt herbergi við ákvörðun gluggastærða.“ Hurðir á íbúðarherbergjum eru ekki einkamál íbúanna heldur. Þær skulu vera að minnsta kosti 80 cm breiðar og 2 metra háar. Mjórri eða lægri hurðir eru bannaðar. Enginn maður má búa í húsi sem hefur slíkar hurðir. Og enginn má búa í gluggalausu – eða gluggalitlu húsi. Það er bannað.

SMIDUROg ef menn halda að þeir ráði því sjálfir hvernig herbergjaskipan er hjá þeim, þá er best að leiðrétta það strax. Ríkið hefur sett reglur um það. Þannig má aðkoma að salerni „ekki vera beint úr stofu, eldhúsi eða borðstofu, nema í íbúðum sem eru 50 m2 eða minni. Hún má heldur ekki vera frá svefnherbergi, nema annað salerni sé í íbúðinni. Aðkoma að öðrum rýmum íbúðar má ekki vera um baðherbergi eða salerni.“ Þeir sem eiga aðeins eitt salerni, þeir mega sem sagt ekki ganga viðstöðulaust úr svefnherberginu inn á salernið. Hinir hins vegar, þeir sem eru með fleiri salerni, þeir mega það alveg. Nú, svo er bannað að vera með íbúð ef henni fylgir ekki „loftræst sérgeymsla“. Sé íbúð stærri en 80 fermetrar, þá verður loftræsta sérgeymslan að vera að minnsta kosti 6 fermetrar. Það er líka skylda að þvottaherbergi fylgi íbúðinni og þvottaherbergið má ekki vera minna en 3 fermetrar. Og fyrst verið er að tala um stærðir herbergja þá er rétt að geta þess að ekkert herbergi má vera mjórra en 2,4 metrar og ekkert herbergi má vera minna en 8 fermetrar. Þá er beinlínis bannað að vera með eldhús sem er minna en 7 fermetrar að stærð. Og á eldhúsinu skal vera opnanlegur gluggi. Ef einhvern langar til að vera með minna eldhús – ja þá getur sá maður flutt úr landi. Hans yrði sennilega ekki saknað.

Svona mætti áfram telja, næstum endalaust. Hið opinbera hefur sett ótrúlega ýtarlegar reglur um það hvernig íbúðarhúsnæði mega vera og – eins og áður sagði – hvernig þau mega ekki vera. En hvers vegna er hið opinbera að þessu? Hagsmuni hvers er verið að verja? Ef einhver maður vill endilega byggja sér íbúðarhús þar sem herbergi eru þröng, hurðir mjóar, ekki er gert ráð fyrir leiksvæði barna á lóðinni, lofthæð er minni en hálfur þriðji metri, aðkoma að salerni er úr svefnherbergi, gluggar eru fáir og enginn í suðurátt – hvað er þá að því? Af hverju má það ekki? Réttindi hvers eru brotin ef manninum yrði leyft að reisa sér slíkt hús?

Nei, er ekki óhætt að endurskoða þessa reglugerð og leyfa borgurunum að ráða sjálfum fleiri atriðum í sínum eigin íbúðum? Það er ekki eins og hér þyrfti að fara út í umfangsmiklar lagabreytingar. Umhverfisráðherra gæti breytt þessari reglugerð strax á morgun.