Laugardagur 2. febrúar 2002

33. tbl. 6. árg.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var í sjónvarpinu á miðvikudag og nú hafði hún áhyggjur. Ekki af sjálfri sér eða R-listanum, nei það voru nú stærri mál sem íþyngdu núverandi borgarstjóra. Hún sagðist bara ekki mega til þess hugsa að Sjálfstæðisflokkurinn yrði kosinn til valda í borgarstjórn því þá stýrði hann ekki aðeins ríkinu og fjölmiðlunum heldur borginni einnig. Og svo æfð var ræðan að það má greinilega búast við henni oft frá Ingibjörgu á næstunni auk þess sem venjulegir fylgihnettir hennar munu bergmála hana í pistlum, greinum og sérfræðiálitum sínum sem Speglar fjölmiðlanna munu senda út fram að kosningum. Og kenningin, hún er auðvitað eins og hún er. Jú, jú, Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið kosinn til talsverðra áhrifa í landsstjórninni og situr nú í ríkisstjórn til jafns við Framsóknarflokkinn. Einhverra hluta vegna þykir Ingibjörgu Sólrúnu samt ekki eins áríðandi að koma í veg fyrir að Framsóknarflokkurinn komi í senn að stjórn ríkisins og höfuðborgarinnar og það eins þó ýmsum myndu líklega þykja slík áhrif eins flokks vafasöm hjá flokki sem á góðum degi mælist með 15 % fylgi í landinu. En nei, það er stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar sem Ingibjörg Sólrún hatast við – eins og reyndar þarf ekki að koma á óvart þegar það rifjast upp að hún situr sjálf á lista sem ekki var myndaður til annars en að koma þessum sama flokki frá völdum og áhrifum. En, það er rétt hjá Ingibjörgu Sólrúnu að Sjálfstæðisflokkurinn hefur notið slíks fylgis meðal landsmanna að hann hefur nú talsverð áhrif á landsstjórnina. Hin kenning hennar, um stöðu þessa flokks meðal fjölmiðla landsins, er hins vegar alger fásinna – eins og hún auðvitað veit mætavel sjálf.

Það er fráleit kenning að Sjálfstæðisflokkurinn njóti sérstakrar velvildar íslenskra fjölmiðlamanna. Ríkisfjölmiðlarnir eru eins og venjulega stútfullir af vinstri mönnum þó þar megi auðvitað eins og á flestum vinnustöðum landsins finna fólk sem laumast til að kjósa stærsta stjórnmálaflokk landsins. Það segir meira en mörg orð um það hve menn hafa vanist því að starfsfólk Ríkisútvarpsins sé vinstri sinnað, að sé ráðinn þangað maður sem ekki er kunnur vinstri maður, að þá er því haldið fram opinberlega í fullri alvöru að „stofnunin sé lögð í einelti“. Svipuð saga er á öðrum fjölmiðlum. Eða hvað, hverjir eru það kannski sem stjórna þessum fjölmiðlum fyrir hönd hins hættulega Sjálfstæðisflokks? Eru það kannski nýir eigendur DV – þar sem Ágúst Einarsson varaþingmaður Samfylkingarinnar er nú stjórnarformaður og helsti ráðamaður – þessir sem létu það verða sitt fyrsta verk að ráða vinstri manninn Sigmund Erni Rúnarsson sem ritstjóra á dögunum? Já og hver stýrir Stöð 2 og Bylgjunni fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins? Eða þriðja dagblaðið, „Fréttablaðið“, eru þar Jónas Kristjánsson og Gunnar Smári að plotta með Birni Bjarna?

„Já en Morgunblaðið, Morgunblaðið, það er nú blárra en allt sem blátt er“, segja menn þá. Já, einmitt. Ætli þeir sem það segja hafi lesið það blað undanfarin ár? Þeir sem halda að Morgunblaðið reki erindi Sjálfstæðisflokksins ættu að leggja það á sig að lesa nokkra leiðara eða jafnvel Reykjavíkurbréf þessi misserin. Endalaus pólitískur rétttrúnaður, sífelldar kröfur boð og bönn, um nýja skatta og aukin ríkisútgjöld innan um almennt hjal um ekki neitt. Ríma þessar áherslur betur við Sjálfstæðisflokkinn en aðra stjórnmálaflokka? Nei, ætli það. Og hvaða fjölmiðlar eru þá eftir? Útvarp umferðarráðs? Ef til vill er Óli H. Þórðarson sjálfstæðismaður? Ja, þá er kannski ekki furða þó að fari um borgarstjóra.