Danskur tölfræðingur og gamall Greenpeace-maður, Bjorn Lomborg að nafni, hefur stundum komið til tals hér í Vefþjóðviljanum. Ástæðan vitaskuld sú að hann sendi frá sér bók sem hlaut að vekja athygli og forvitni allra þeirra sem hafa áhuga á umhverfismálum en vilja jafnframt að þau séu rædd af öfgaleysi og í samræmi við raunverulegt ástand heimsins. Bók þessi, sem fyrir nokkru kom út í íslenskri þýðingu undir nafninu Hið sanna ástand heimsins, er mikilvægt innlegg í alla skynsamlega umræðu um umhverfismál og þarf þá varla að taka fram að þeir, sem eiga allt undir því að fólk vaði reyk í umhverfismálum, hafa brugðist hinir verstu við. Hafa þeir kallað Lomborg öllum illum nöfnum og lagt gríðarlega mikið á sig til að reyna að finna höggstað á honum og málflutningi hans. En árangurinn hefur verið einstaklega rýr og í litlu samræmi við tilfinningahitann sem iðulega einkennir málflutning og fas umhverfissinna.
Í viðtalinu nefnir Lomborg ýmsar bábiljur umhverfissinna svo sem trúarbragðakenndar kröfur um endurvinnslu, og hugmyndir fjölda fólks um að dýr og plöntur séu í látlausri útrýmingarhættu, loftmengun fari vaxandi og að regnskógarnir séu að hverfa fyrir fullt og allt. |
Og það hefur stundum mikið verið á sig lagt og mætti nefna ýmis dæmi um það. Bjorn Lomborg kvaddi sér hljóðs um umhverfismál með greinaflokki í danska blaðinu Politiken og benti þar strax á hversu hrakspár og heimsendakenningar umhverfissinna eru fjarstæðukenndar. Þegar nokkrar slíkar greinar höfðu birst gaf umhverfisráðherra Danmerkur 2500 opinberum starfsmönnum sérstök fyrirmæli um að leggjast yfir þær og reyna að grafa upp hvaða villur og missagnir sem þeir gætu. Þarf það svo sem ekki að koma á óvart því starfsmenn umhverfisráðuneyta átta sig á því, rétt eins og forstjórar umhverfisverndarsamtaka, að fjárveitingar til þeirra verða í réttu hlutfalli við ótta fólks um umhverfi sitt. Átti fólk sig á því, að heimurinn er ekki á heljarþröm, náttúruauðlindir eru ekki að hverfa, maðurinn er ekki að útrýma dýrunum og svo framvegis og framvegis, þá mun fólk síður sætta sig við látlaust fjáraustur til „umhverfismála“ og ekki taka í mál að „umhverfissinnum“ haldist uppi að hindra framfarir og hagræðingu um heim allan.
Á dögunum var Bjorn Lomborg í viðtali við breska blaðið The sunday telegraph og segir þar frá því að hann hafði þá nýlega loks fengið bitastæða gagnrýni frá umhverfissinnum. Hafði Lomborg verið staddur í bókaverslun í Oxford og verið að kynna nýútkomna bók sína þegar þekktur umhverfissinni, Mark Lynas að nafni, tók sér stutt hlé frá baráttu sinni fyrir verndun heimskautasvæðanna, og fleygði nýbakaðri og gómsætri böku framan í hann til þess að leggja áherslu á sjónarmið sín. Aðrar kveðjur umhverfissinna til Lomborgs hafa verið misjafnlega vingjarnlegar, hótunum rignir yfir hann og hann þarf að vera sérstaklega varkár þegar hann opnar póstinn sinn þar sem þar leynist oft umhverfisóvænn glaðningur frá umhverfissinnum. Í viðtalinu segir Lomborg, sem eins og áður sagði starfaði mikið með Greenpeace áður en hann hóf að grafast fyrir um sannindin í málflutningi umhverfissinna, að margir vinstri sinnaðir vinir sínir telji það beinlínis siðferðilega ámælisvert af sér að segja að ástand umhverfismála batni jafnt og þétt. Sem þó sé raunin.
Lomborg segir í viðtalinu að sjálfur hafi hann árum saman verið áhyggjufullur vinstrisinni og ef hann hefði til dæmis verið spurður árið 1980 þá hefði hann talið fullvíst að helstu náttúruauðlindir yrðu uppurnar árið 2000. Árið 1997 hafi hann hins vegar rekist á grein um bandarískan prófessor, Julian Simon að nafni, en sá hafði árum saman rannsakað opinberar bandarískar tölur og notað þær til að hrekja málflutning umhverfissinna á ótal sviðum. Í greininni var fjallað um bók þar sem Simon hafði dregið niðurstöður sínar saman, The state of humanity, og varð Lomborg strax sannfærður um að Simon færi algerlega villur vegar. „Ég hugsaði með mér: það ætti að vera auðvelt að hrekja ruglið úr þessum og það verður gaman að gera hann að fífli“ rifjar Lomborg upp nú. Á þessum árum var Lomborg lektor í tölfræði við háskólann í Árósum og hann og nemendur hans tóku sér fyrir hendur að fara vandlega yfir niðurstöður Simons í þeim tilgangi að hrekja þær, lið fyrir lið. En Lomborg og nemendur hans komust hins vegar að því, sér til mikillar furðu, að í öllum meginatriðum hafði Julian Simon rétt fyrir sér.
Í viðtalinu nefnir Lomborg ýmsar bábiljur umhverfissinna svo sem trúarbragðakenndar kröfur um endurvinnslu, og hugmyndir fjölda fólks um að dýr og plöntur séu í látlausri útrýmingarhættu, loftmengun fari vaxandi og að regnskógarnir séu að hverfa fyrir fullt og allt. Og Lomborg telur allt of miklum tíma og peningum varið til að hafa áhyggjur af því að lofthiti jarðarinnar sé að aukast. Miklu nær sé að verja þessum verðmætum til annarra hluta og nefnir Lomborg sem dæmi að fyrir það fé sem eytt var í hina svo kölluðu „Kyoto-ráðstefnu“ hefði mátt útvega öllum jarðarbúum hreint vatn til frambúðar en þannig mætti bjarga lífi tveggja milljóna manna og forða hálfum milljarði manna frá ýmsum sjúkdómum – á hverju ári.
Undanfarin ár hefur umhverfissinnum mjög vaxið fiskur um hrygg. Fjölmiðlar gleypa við hamfaraspám þeirra og hryllingssögum – enda vekja slíkar fréttir auðvitað meiri athygli en upplýsingar um það að flest stefni í rétta átt – og á það töluverðan þátt í því að fjölmargir almennir borgarar líta á það sem ómótmælanlega staðreynd sem „allir“ viðurkenni, að í umhverfismálum verði nú að fara að með mikilli gát. Ekki aðeins hafa víðast hvar verið stofnuð sérstök ráðuneyti umhverfismála heldur er nú fleira og fleira beinlínis óheimilt án leyfis slíkra ráðuneyta. Kröfur um fleiri bönn, strangari skilyrði, nýja skatta og sífellt óhagkvæmari framleiðsluaðferðir eru háværar og því fremur sem ranghugmyndir fólks um umhverfismálin verða víðfeðmari. Ekki síst þess vegna er bók Bjorns Lomborgs mikilvæg og rík ástæða til að hvetja sem flesta til að kynna sér hana með opnum huga. Sem betur fer hafa margir gert það, en Hið sanna ástand heimsins hefur selst afar vel bæði austan hafs og vestan. En þó höfundurinn sé orðinn frægur af verki sínu þá segist hann sjaldan leiða hugann að því: „Það er ekki sérstaklega gaman að vera frægur. En það er gaman að hafa á réttu að standa.“