Föstudagur 1. febrúar 2002

32. tbl. 6. árg.

A

Varúð, þessar spjarir kunna að vera með of miklum afslætti.
Varúð, þessar spjarir kunna að vera með of miklum afslætti.

f fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi að dæma gætu menn ætlað að innan viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands hafi nú verið fundið út að fákeppni ríki á smásölumarkaði, að slík fákeppni sé vandamál, að til sé lausn á því vandamáli og að innan deildarinnar hafi lausnin verið fundin. Í fréttatíma sjónvarpsins var nefnilega sagt frá fundi í málstofu deildarinnar þar sem nemandi í meistaranámi í viðskiptafræðum kynnti niðurstöður rannsókna sinna á þessu sviði og meistaraprófsritgerð sem skrifuð var um efnið. Helgi H. Jónsson fréttamaður lýsti í grófum dráttum erindi nemandans og hvernig hann hafi fundið út að afsláttur heildsala til smásala hefði orsakað hina svokölluðu fákeppni á markaði hinna síðarnefndu. Helgi lýsti svo samviskusamlega þeim aðferðum sem nemandinn taldi rétt að beita til að koma í veg fyrir hið mikla vandamál sem ofurafslátturinn er að hans mati. Svo var stutt viðtal við meistaranemann sem lýsti ofurtrú sinni á „samkeppnisyfirvöld“. Ekki var vikið einu orði að öðrum sjónarmiðum sem kynnu að vera í málinu.

Það var hins vegar fullt tilefni til þess því sjónarmið meistaranemans voru harðlega gagnrýnd af fundarmönnum sem hlýddu á erindi hans. Nánast allir sem til máls tóku að kynningu nemans lokinni lýstu furðu sinni á forsendum, aðferðum og niðurstöðum sem kynntar voru í ritgerðinni. Þeirra á meðal voru prófessor og dósent við viðskiptafræðideild skólans. Það ekki ofsögum sagt að skoðanaágreiningur var á milli þeirra og nemandans. Annar þeirra sakaði frummælandann hreinlega um staðreyndarvillur í málflutningi sínum og hinn hélt því fram að hann væri á villigötum. Athugasemdir annarra voru í sama dúr og viðurkenndi nemandinn meðal annars að með ritgerð sinni væri boðað verðlagseftirlit í nokkurri mynd.

Það er ráðgáta af hverju fréttamaðurinn kaus að skauta fram hjá umfjöllun um þá gagnrýni sem átti sér stað eftir framsögu nemandans en kynna þess í stað ritgerð hans sem vísindalega rannsókn sem leitt hefði í ljós nauðsyn þess að efla vald „samkeppnisyfirvalda“.

Því má ef til vill hnýta við frétt Helga að leiðbeinandi meistaranemandans var Guðmundur Ólafsson lektor í matvælafræði við viðskipta- og hagfræðideild og prófdómarinn er jafnframt formaður „Samkeppnisráðs“. Niðurstöður ritgerðarinnar þurfa því ekki að koma mjög á óvart.