Þriðjudagur 29. janúar 2002

29. tbl. 6. árg.

Á dögunum varð mikið upphlaup vegna tilkynningar frá Seðlabankanum um að matvara hefði hækkað umfram hækkun erlendra gjaldmiðla á síðustu 12 mánuðum. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi upplýsti Gunnlaugur Jónsson verkfræðingur hins vegar að ef menn taka tvö ár til skoðunar hefur innflutt matværa lækkað miðað við erlenda gjaldmiðla. Hann benti einnig á að menn taka stundum of stutt tímabil til að hægt sé að draga af þeim ályktanir um þróun. Þetta hefur til dæmis Samkeppnisstofnun gerst sek um. Raunar sérvaldi stofnunin sú tímabil til að fá sem hægstæðasta niðurstöðu fyrir herferð sína gegn matvöruversluninni.

Ætli þessir neytendur hafi skipt við of vinsæl fyrirtæki á mælikvarða "samkeppnisyfirvalda"?
Ætli þessir neytendur hafi skipt við of vinsæl fyrirtæki á mælikvarða “samkeppnisyfirvalda”?

Meðal annars vegna þessara upplýsinga frá Seðlabankanum verða nú mikil upphlaup á Alþingi dag eftir dag. Eru þingmenn ekki sáttir við að gjaldmiðillinn sem þeir gefa sjálfir út féll, eins og um evru væri að ræða, á síðasta ári og menn þurfa nú fleiri krónur en áður til að kaupa sömu vörur. Í þeim gagnmerku umræðum er ýmsum hótað ýmsu, svo ekki sé meira sagt. Jafnvel er lagt til í fullri alvöru að fyrirtæki sem starfa á opnum markaði án nokkurra ríkisstyrkja eða ívilnana verði bútuð niður og tekin af eigendum með valdi. Er þess krafist að Samkeppnisstofnun „fái tæki“ til að höggva atvinnufyrirtæki fólks í spað og hirða bitana af eigendum þeirra.

Nú kann einhverjum að finnast það ágætt að Samkeppnistofnun hafi „tæki“ til að taka fyrirtæki af eigendum. En á þessu máli er einnig önnur hlið. Neytendur hafa beint viðskiptum sínum til þessara fyrirtækja. Það er þeirra val að þessi fyrirtæki hafa vaxið og dafnað. Ef fyrirtækin hætta að standa undir væntingum neytenda snúa þeir sér annað. Neytendur hafa valið og síðasta orðið. Ef Samkeppnisstofnun fær hins vegar „tæki“ til að banna vinsæl fyrirtæki er verið að taka valfrelsið af neytendum og færa það inn á kontór hjá hinni fyrrverandi Verðlagsstofnun ríkisins.

Til hvers hafa menn opnað markaði hér á landi, aflétt hömlum af viðskiptum og einkavætt ríkisfyrirtæki ef allt vald verður tekið af neytendum á nýjan leik og fengið Samkeppnisstofnun?