Miðvikudagur 30. janúar 2002

30. tbl. 6. árg.

Besta leiðin til að koma í veg fyrir að menn séu ráðnir af öðrum ástæðum en eigin verðleikum er einkavæðing og fækkun opinberra stofnana. Stjórnendur opinberra stofnana bera ekki sjálfir kostnaðinn af því að ráða lakari starfskraft en í boði er. Eigendur einkafyrirtækja finna hins vegar fyrir því í eigin pyngju ef þeir láta önnur sjónarmið en hæfni ráða. Það er hins vegar kunnara en frá þurfi að segja að oft er erfitt að gera upp á milli manna sem sækja um starf enda sækja oft menn með svipaða menntun og reynslu um sömu störfin. Ekki eru til algildir mælikvarðar á hæfileika manna til að sinna tilteknum störfum. Stundum hentar ákveðin menntun betur en önnur, ákveðin reynsla umfram önnur o.sfrv. En þegar upp er staðið verða stjórnendur einkafyrirtækja jafnt sem opinberra stofnana oft að láta það duga sem úrslitaatriði að þeim hafi einfaldlega hugnast best að vinna með ákveðnum einstaklingi eða jafnvel að sér hafi „bara litist best á þennan“ en ekki hinn. Stundum geta stjórnendur hreinlega ekki útskýrt það með góðu móti hvernig þeir komust að niðurstöðu. Við því er í raun ekkert að segja.

Laura ef hún væri á ferð í Lepus.
Laura ef hún væri á ferð í Lepus.

Nú kann því einhverjum að finnast undarlegt að hægt sé að fá mann dæmdan fyrir að ráða ekki tiltekinn umsækjanda í starf. En því miður vill svo til að stefnendur og dómarar hafa það sér til afsökunar að það tókst einu sinni að berja það í lög landsins að við ráðningar í störf eigi sérstaklega að horfa til þess hve margar konur og hve margir karlar séu fyrir í viðkomandi starfsgrein. Þetta ákvæði getur haft það í för með sér að nauðsynlegt sé fyrir þann sem ræður að telja konu vanhæfa til að gegna starfi vilji hann endilega koma ákveðnum karli að. Er það vafalaust ánægjulegt fyrir konur að fá slíka umsögn um sig vegna jafnréttisákvæða í lögum.
Svo dæmi sé tekið hafa fjölmargir karlmenn í áranna rás verið skipaðir sýslumenn en sárafáar konur, þá hafa kvenkyns umsækjendur um stöðu sýslumanns sérstakt forskot á alla þá karlmenn sem kunna að sækja um slíkt starf. Hið sama gildir um mýmörg önnur störf enda atvinnuþátttaka kvenna miklu minni en karla fram á síðustu ár. Þetta er hins vegar mjög ósanngjarnt lagaákvæði og þarf ekki að taka fram að það er til fólk sem er ákaflega hlynnt því. Reglur sem þessar gera ráð fyrir að karlar í landinu séu ein heild, konur séu önnur heild, og þessar tvær „heildir“ verði endilega að standa jafnar á öllum sviðum.

En karlar í landinu eru ekki ein heild og konur í landinu ekki heldur. Karlar í landinu eru um 140.000 einstaklingar sem ekki eiga að líða fyrir það hvernig skipast hefur í störf á undanförnum árum og áratugum. Og konur í landinu eru álíka margir einstaklingar sem ekki eiga að hagnast sérstaklega á því hvernig skipast hefur í þessi sömu störf. Þegar við þetta bætist svo, að þar til fyrir fáum árum höfðu þúsundir karla en næstum engar konur lokið námi í lögfræði á Íslandi – frá landnámi til ársins 1970 luku 10 konur embættisprófi í lögfræði – , þá hljóta allir nema femínistar að sjá hversu fráleitt það er taka mið af kynjahlutfalli í sýslumannastétt þegar nýr sýslumaður er skipaður. Eða hvað? Treystir nokkur réttsýnn maður sér til að gera þá kröfu, að ungur karlkyns lögfræðingur standi lakar að vígi en skólasystir hans úr lagadeildinni, einfaldlega vegna þess að fyrr á árum sinntu konur ekki lögfræðistörfum?

Og það er sama hver starfsgreinin er og hvaða ástæða kann að vera fyrir mismunandi kynjahlutföllum þar. Það hlýtur að vera einhver ákaflega ógeðfelld hugsun sem knýr fólk til að krefjast þess að umsækjendum um störf sé mismunað eftir því hvers kyns starfsmenn hafa áður valist í starfsgreinina. Nema auðvitað menn telji að umsækjendur dagsins í dag beri einhverja ábyrgð á því hvernig raðast hefur í störf á Íslandi – og annars staðar í veröldinni – undanfarna áratugi. Ef menn hins vegar átta sig á því að umsækjendur í dag bera enga ábyrgð á kynjahlutföllum fyrri ára, þá verða þeir jafnframt að hætta að refsa þeim fyrir þau. Og þá verður að afnema allar reglur sem kveða á um að líta skuli til kynjahlutfalls í starfsgrein þegar gert er upp á milli umsækjenda.