Mánudagur 28. janúar 2002

28. tbl. 6. árg.

Robert Nozick, heimspekingur, lést á miðvikudaginn í nýliðinni viku, 63 ára að aldri. Nozick, sem varð prófessor við Harvard háskóla árið 1969 aðeins þrítugur að aldri, var hvað kunnastur fyrir bók sína, Anarchy, State and Utopia, sem út kom 1974. Bókin skiptist í þrjá hluta eins og titillinn gefur til kynna og í fyrsta hlutanum færir Nozick rök fyrir því að stjórnleysið fái ekki staðist til lengdar. Hann vísar til John Locke og bendir á að einhverskonar ríkisvald myndist jafnvel þó það sé ekki ætlun neins að mynda það og að myndun þess þurfi ekki nauðsynlega að ganga gegn rétti einstaklinganna. Hann færir jafnframt rök fyrir réttmæti takmarkaðs ríkisvalds sem gegnir eingöngu því hlutverki að vernda gegn ofbeldi, þjófnuðum, svikum og samningsbrotum og leitast við að skilgreina hvað felst í rétti einstaklinga.

Í öðrum hluta bókarinnar sýnir Nozick fram á að ríkisvald sem er umsvifameira en það lágmarksríki sem hann réttmætir í fyrsta hlutanum hljóti ávallt að ganga gegn rétti einstaklinganna og sé því um leið óréttmætt ríkisvald. Þessi hluti bókarinnar er jafnframt gagnrýni á kenningar John Rawls um réttlætið og réttmæti ríkisvaldsins sem tækis til jöfnunar. Þannig leggur Nozick áherslu á að það sé ekki réttmætt að ríkið þvingi ákveðna einstaklinga öðrum til hjálpar og að ríkinu sé ekki stætt á að vernda einstaklingana gegn sjálfum sér. Í þriðja hluta bókarinnar fjallar Nozick um lágmarksríkið sem útópíu en hann leggur um leið nýstárlegan skilning í hugtakið. Nozick lítur á lágmarksríkið sem nokkurskonar meta-útópíu, ríki þar sem margskonar mismunandi samfélög fá þrifist án þess að þau nauðsynlega útiloki hvert annað. Útópía Nozicks er því ekki endanlegt samfélag endanlegs sannleika heldur mörg og mismunandi, rísandi og hnignandi, samfélög frjálsra einstaklinga.

Óhætt er að segja að Anarchy, State and Utopia sé eitt merkasta framlagið til stjórnmálaheimspekinnar á 20. öldinni og um leið eitt hið umdeildasta. Bókin var ekki síst nýstárleg fyrir það að Nozick taldi tilvist ríkisvaldsins ekki sjálfsagða eða með öðrum orðum gaf hann sér ekki nauðsyn ríkisvalds fyrirfram. Gagnrýnendur bókarinnar hafa gjarnan sagt hana vera hina heimspekilegu undirstöðu frjálshyggjunar um leið og þeir telja sig hafa fundið grundvallarvillu í bókinni og þá um leið frjálshyggjunni sjálfri. Sjálfur leit Nozick á bók sína sem tilraun í stjórnmálaheimspeki og í formála bókarinnar gagnrýndi hann þá sem telja að bækur um heimspeki eigi að vera einhverskonar órjúfanleg heild þar sem ekki er einn laus þráður með þeim orðum að í heimspeki væri rúm fyrir fleiri orð en lokaorð. Viðhorf Nozick til frjálshyggju tóku breytingum og komu þær breytingar skýrast fram í bók hans The Examined Life þar sem hann endurskoðar hugmyndina um lágmarksríkið. Nozick taldi sig þó engu að síður frjálshyggjumann en lagði jafnframt áherslu á að hann væri ekki íhaldsmaður, rétt eins og annar kunnur frjálshyggjumaður, Friedrich A.von Hayek. Nozick ritaði fleiri bækur og er fjölbreytni hans í efnisvali við brugðið enda var hann kunnur sem prófessor af því að hafa aldrei, á 33 ára ferli sínum, kennt sama námskeiðið tvisvar utan einu sinni. Aðrar bækur Nozicks sem ekki gefst tóm til að fjalla um hér eru eftirfarandi og eru lesendur hvattir til að kynna sér þær: Philosophical Explanations (1981), The Examined Life (1989), The Nature of Rationality (1995), Socratic Puzzles (1997) og Invariances: The Structure of the Objective World (2001)