Helgarsprokið 27. janúar 2002

27. tbl. 6. árg.

Stundum telur fólk að bandarískar kvikmyndir lýsi réttarástandi á Íslandi. Margir hafa til dæmis staðið í þeirri trú að skipstjóri geti gefið fólk saman sé það statt í lífsháska á hafi úti en hér á árum áður voru vinsælar kvikmyndir um fólk í hættu í suðrænum sjó. Í þessum myndum var það gjarnan virðulegur hvítklæddur skipstjóri sem á síðustu stundu náði að pússa saman örvæntingarfulla elskendur sem biðu dauðans í greipum ægis. Á Íslandi hafa skipstjórar aldrei verið jafn fjölhæfir og kollegar þeirra í bíómyndunum bandarísku. Misskilningur fólks um annað hefur þó ekki valdið nokkrum vandræðum að vitað sé.

Svo virðist sem það sé orðið glæpsamlegt að ná góðri markaðshlutdeild í ákveðinni grein. Fyrirtæki sem boðið hafa góð kjör og góða þjónustu með þeim árangri að neytendur vilja helst ekki við önnur skipta, ja þau verða kannski bara bönnuð.“

Þær eru hins vegar ekki vandræðalausar aðgerðir og ummæli stjórnvalda í samkeppnismálum þessa dagana en hvort tveggja ber með sér að menn halli sér frekar að bíómyndaréttarfari þegar kemur að aðgerðum á því sviði. Samkeppnisyfirvöld áttu þannig hasarmyndasprett í desember þegar þau óðu inn á skrifstofur þriggja fyrirtækja og tóku þar völdin. Skrifstofur voru tæmdar og engu var eirt, ekki einu sinni persónulegum munum starfsmanna. Lögregla, vopnuð handjárnum og augnúðabrúsum, stóð hjá aðgerðalaus, sjálfsagt með vísan til húsleitarheimilda útlendra kvikmynda.

Í vikunni voru svo samkeppnismál enn til umræðu og nú á alþingi. Þar voru stjórn og stjórnarandstaða sammála. Og eins og menn vita að þá er voðinn vís. Í afar undarlegri umræðu um matvöruverð reyndu stjórnmálamenn að kenna mönnum út í bæ um að gengi krónunnar hefur fallið með þeim afleiðingum að nú þarf fleiri krónur en áður til að kaupa sömu vöru. Ef marka má umræðuna á þingi telst það ekki kostur að verslanir svari kröfum neytenda, að minnsta kosti ekki meirihluta neytenda. Svo virðist sem það sé orðið glæpsamlegt að ná góðri markaðshlutdeild í ákveðinni grein. Fyrirtæki sem boðið hafa góð kjör og góða þjónustu með þeim árangri að neytendur vilja helst ekki við önnur skipta, ja þau verða kannski bara bönnuð.

Það mátti að minnsta kosti ekki annað greina af ummælunum á Alþingi í vikunni. Þar hóta menn eignaupptöku með niðurbroti matvöruverslana landsmanna eins og ekkert sé sjálfsagðara. Skiptir engu þótt lög í landinu heimili ekki slíkar aðgerðir. Af hverju ætti það líka að skipta löggjafann máli hvaða lög gilda. Lögum má jú alltaf breyta. Og hafi menn fengið á heilann að eitthvað sé framkvæmt með tilteknum hætti í útlöndum þá er náttúrulega ekkert því til fyrirstöðu að apa það eftir hér á landi. Og þá er ekki spurt að því hvort menn hafi fullan skilning á þeim reglum sem þar gilda. Nei, bíómyndaskilningurinn stendur mönnum þá næst. Umræðan um samkeppnismál einkennist meir og meir af þessum töffaraskap úr kvikmyndum. Sífelldar hótanir eru hafðar í frammi. Og þegar látið er til skarar skríða verða allir undir. Neytendur munu ekki spyrja um aðgerðir í þessum efnum. Þeir munu hins vegar spyrja um afleiðingar aðgerða og þeim spurningum ætti að svara áður en öðru er hótað.

Þess má svo að lokum geta að þingmennirnir 63 á Alþingi reka saman nokkur fyrirtæki. Meðal þeirra eru ÁTVR sem hefur einkarétt á sölu áfengis og Ríkisútvarpið sem með lagaboði frá Alþingi hefur alla eigendur sjónvarpstækja í viðskiptum. Ekki er minnst á þessi einokunarfyrirtæki í allri umræðunni um „samkeppnismál“. Þá má einnig halda því til haga að ríkið rekur Landssímann sem ætla mætti að undir stjórn ríkisins hagaði sér í einu og öllu eftir því sem þingmenn telja vera rétta samkeppnishegðun. Landssíminn er hins vegar einn helsti viðskiptavinur „samkeppnisyfirvalda“.