Mánudagur 21. janúar 2002

21. tbl. 6. árg.

„Ráðherra viðskiptanna telur / að vegurinn til velgengni sé / að fórna efnahag og sjálfstæði / með köldu blóði eins og þorskur“.

Svo orti hið sérstæða atómskáld, Jónas Svafár, fyrir einum þrjátíu og fimm árum. Tilefnið var það, að Gylfi Þ. Gíslason, viðskiptaráðherra og formaður Alþýðuflokksins, hafði fullyrt að Íslendingum væri á því nauðsyn að fórna fullveldi sínu og gætu þeir þannig haldið frelsi sínu. Nei, hún er ekki ný af nálinni sú kenning að Ísland geti ómögulega staðið í því að vera frjálst og fullvalda ríki heldur hljóti það fyrr eða síðar að gefa fullveldi sitt eftir til annarra ríkja eða ríkjasambanda. Umtöluð ræða Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra í síðustu viku, þar sem ráðherrann reifaði þá kenningu sína, að fullveldi Íslands yrði best tryggt með því að það yrði látið lönd og leið er þannig ekki jafn frumleg og margir hafa látið. Að minnsta kosti eru hugmyndir Halldórs aðeins eitt lítið blóm í allri þeirri flóru lítt rökstuddra staðhæfinga og undarlegra kenninga um fullveldi Íslands sem nú er dembt yfir fólk.

Sumir segja núna að fullveldi ríkja sé úrelt hugmynd. Ríki séu einfaldlega ekki fullvalda lengur. Á nýrri öld þurfi þau sko að glíma við glóbal-vandamál og þar með verði þau að lúta einhverju yfirþjóðlegu valdi. Nú, aðrir segja að fullveldið sé enn mikilvægt, en það hafi hins vegar breyst. „Við stöndum frammi fyrir allt annars konar fullveldi en við höfum vanist“ segja nokkrir spekingar. Ekki kemur að vísu fram hverjir þessir „við“ séu, hvernig fullveldið hafi „breyst“ og auðvitað er ekkert sagt um það hverjir hafi breytt því. Eða hvenær. En fullveldið hefur sko breyst samt. Þá eru ekki síðri kenningasmiðirnir sem segja að til að verja fullveldi sitt þá eigi Ísland engan skárri kost en að ganga í Evrópusambandið sem fyrst og tryggja sér þannig „áhrif á framvindu mála“. Þannig megi verja eða jafnvel endurheimta fullveldið, því þessir náungar eru með það á hreinu að eftir gildistöku samningsins um hið evrópska efnahagssvæði hafi Ísland lítil sem engin áhrif á það hver lög gildi í landinu. Það myndi hins vegar breytast með inngöngu í Evrópusambandið af því þá fengi einn Íslendingur að sitja fundi þar sem ákvarðanir væru teknar. Og hafa þar jafnvel eins og einn tíunda úr atkvæði Grikklands.

Í ræðu sinni á dögunum fullyrti Halldór Ásgrímsson sem sagt að það væri alrangt að Ísland glataði sjálfstæði sínu ef það gengi í Evrópusambandið og spurði sigri hrósandi hvort nokkrum manni dytti kannski í hug að lönd eins og Danmörk og Svíþjóð væru ekki sjálfstæð ríki. Ekki er gott að slíkum spekingi sé ekki svarað og sjálfsagt að hlaupa undir bagga: Jú, þegar Evrópusambandið hefur tekið upp sérstaka stjórnarskrá, sameiginlega skatta, sameiginlegan gjaldmiðil, sameiginlega peningamálastjórn og sameiginlegar hersveitir, og þegar allar þýðingarmiklar reglur verða settar í Brussel en aðildarríkin hafa aðeins ákveðna sjálfstjórn í nokkrum tilteknum veigalitlum málum, þá verða Danmörk og Svíþjóð ekki sjálfstæð ríki. Og það yrði Evrópusambandsríkið Ísland ekki heldur. Ísland yrði hérað í Evrópuríkinu, lyti stjórn þess í Brussel en væri ekki sjálfstæðara en hvert annað hérað í stóru ríki. – Og svo Halldór fái ekki bara svar heldur einnig spurningu: Heldur ráðherrann kannski, að Svíþjóð, sem er aðili að Evrópusambandinu, sé í dag frjálst og fullvalda ríki, en Noregur, sem er ekki aðili að Evrópusambandinu, sé hvorugt?

Evrópusambandið stefnir nú hraðfari í átt að Evrópuríkinu. Sameiginlega myntin er komin, stjórnarskráin vofir yfir, ekki líður á löngu þar til kalla má sameiginlega herinn út, Evrópuskattar eru í bígerð og þannig má áfram telja. Og menn þurfa ekki að láta sér koma til hugar að þegar einu sinni komið inn, að þá geti menn bara síðar farið út. Eða heldur einhver að þessi „sjálfstæðu“ og „fullvalda“ Evrópusambandsríki geti kannski bara einn góðan sagt bless? Eða að þessi „fullvalda ríki“ geti kannski nokkurn tíma síðar ákveðið að taka aftur upp sinn gamla gjaldmiðil, þó ekki væri annað? Það getur verið að hér á Íslandi finnist menn sem halda þetta – eða segjast að minnsta kosti halda þetta – en í Brussel eru menn ekki með sömu látalætin: „You cannot leave the Eurozone once you’re in“ sagði Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir rúmri viku og verður það varla misskilið.

Sumir tala mikið um það að „Evrópumálin“ séu mikilvægasta úrlausnarefni íslenskra stjórnmála og hljóti að vera til látlausrar umræðu. Gott og vel, taliði um „Evrópumálin“ daginn út og inn og upp úr svefni líka ef þið viljið. En hættiði þessu þvaðri um að aðild að Evrópusambandinu sé sérstakur liður í því að „styrkja fullveldið“. Með aðild að Evrópusambandinu hyrfi það fullvalda íslenska ríki sem menn hafa þekkt fram að þessu en í staðinn kæmi amt í Evrópuríkinu. Ef það er það sem þið viljið, segiði það þá hreint út, en ef ekki, hættiði þá þessu rugli.