Þriðjudagur 22. janúar 2002

22. tbl. 6. árg.

Fulltrúar tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, mættust í sjónvarpsþættinum Silfur Egils um helgina. Tilefnið var nýlegur héraðsdómur yfir manni sem flutti til landsins mikið magn af fíkniefnum í pilluformi. Þessi innflytjandi var dæmdur í tólf ára fangelsi. Annar stjórnmálamaðurinn benti á að í kjölfar nýlegrar útvíkkunar refsiramma fyrir þetta afbrot, sem innflutningur fíkniefna er nú, falli nú þyngri dómar yfir innflytjendum en nauðgurum og jafnvel morðingjum. Þessi fulltrúi taldi baráttu gegn fíkniefnum vera í öngstræti og sagðist vona að hinn þungi héraðsdómur leiddi til þess að endurskoðuð verði sú stefna að meðferð sumra fíkniefna sé refsiverð.

Hinn stjórnmálamaðurinn í þessum sjónvarpsþætti lýsti hins vegar yfir þeirri skoðun sinni að eðlilegt sé að þeir sem flytja inn fíkniefni verði dæmdir álíka þungt og þeir sem drepa aðra menn. Þessi fulltrúi rökstuddi afstöðu sína þannig að þau fíkniefni sem verið sé að flytja til landsins væru það hættuleg að neytendur þeirra deyi af völdum neyslunnar. Því sé eðlilegt að dæma innflytjandann á svipaðan hátt og morðingja. Það væri fróðlegt að sjá svar stjórnmálamannsins við spurningu um það hvort hann vilji að maður fari niður í bæ og drepi mann eða flytji inn fíkniefni. Það er eins og menn gleymi því stundum að það eru fíkniefnaneytendur sem neyta fíkniefnanna.

Það er ávallt sorglegt þegar stjórnmálamenn gleyma að reikna með því að landsmenn taki sjálfir ákvarðanir um sín persónulegu mál. Einstaklingar ákveða einnig sjalfir hvort þeir neyta fíkniefna og hvort þau efni heita áfengi, hass, sígarettur eða e-pillur. Þessar ákvarðanir taka einstaklingar hvort sem ríkisvaldið ákveður að fangelsa þá sem flytja efnin inn eður ei. Á meðan einstaklingar taka ákvarðanir um að neyta fíkniefna breyta þungir fangelsisdómar því einu að ábatasamara verður að flytja slík efni til landsins, hvort sem um er að ræða „spíra“ eða „spítt“.

Enn einkennilegra var að horfa upp á að sá stjórnmálamaðurinn sem gleymdi þessum einföldu og sjálfsögðu sannindum var kynntur til sögunnar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Slíkur málflutningur á illa við stjórnmálaflokk sem í áratugi hefur kynnt þá stefnu að hann standi vörð um rétt einstaklinga til að ráða sér sjálfir.