Helgarsprokið 20. janúar 2002

20. tbl. 6. árg.

Fyrir réttu ári tók George W. Bush við forsetaembætti í Bandaríkjunum. Aðdragandi embættistöku Bush líður mönnum sjálfsagt seint úr minni því keppinautur Bush til forsetaembættis, Al Gore þáverandi varaforseti, dró bandarísku þjóðina á því í 36 daga að fá niðurstöðu úr kosningunum. Allan þann tíma stóð hann fyrir miklu áróðursstríði, endurtalningum í Flórída sem engan enda ætluðu að taka og kærumálum fyrir dómstólum. Gore lýsti sig ekki sigraðan fyrr en hann hafði orðið undir í hverri einustu endurtalningu og eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafði úrskurðað að það bryti gegn stjórnarskránni að fara að frekari kröfum Gores.

„Hvort það er gráglettni örlaganna eða eitthvað annað sem olli því skal ekki fullyrt um hér, en það var einmitt sonur svindlarans frá Chicago, William Daley, sem stýrði þessari kosningabaráttu Gores, þar með talið hæpnum aðgerðunum í Flórída.“

Á meðan Gore stóð fyrir þessum ófriði um niðurstöðu kosninganna er líklega óhætt að fullyrða að fjölmiðlar hafi verið furðu hliðhollir honum og fréttir hafi frekar endurspeglað sjónarmið hans en Bush. Þegar litið er til viðhorfa fjölmiðlamanna þarf þetta þó út af fyrir sig ekki að koma á óvart, yfirgnæfandi meirihluti fjölmiðlamanna studdi Gore og var þannig allt annarrar skoðunar en almenningur. Þetta er reyndar ekkert einsdæmi, fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að vera lengra til vinstri en fólk er almennt. Samúð fjölmiðlamanna með Gore auðveldaði honum áróðursstríðið, en um það má til dæmis lesa í bókinni At any cost: How Al Gore Tried to Steal the Election eftir Bill Sammon blaðamann á Washington Times, en í þeirri bók eru atburðir daganna 36 raktir all ýtarlega í spennandi og skemmtilegri frásögn.

Hér verða misheppnuð kærumál Gores ekki rakin í smáatriðum en þó má benda á nokkur atriði sem menn kunna að hafa gleymt eða voru fyrirferðarlítil í fjölmiðlum þegar atburðirnir áttu sér stað. Sem dæmi má taka að í Flórída kusu þúsundir glæpamanna sem ekki hefðu átt að fá að kjósa. Vitað er eftir kannanir að þessi hópur var almennt afar hliðhollur Gore og þess vegna má gera ráð fyrir að hann hafi hagnast um þúsundir atkvæða vegna þessa. Þegar jafn mjótt er á munum og raun bar vitni í kosningunum vega þúsundir atkvæða afar þungt. Einnig má nefna að atkvæði hermanna sem staddir voru erlendis hlutu afar óblíða meðferð hjá stuðningsmönnum Gores og varð úr mikil deila þegar Gore tókst að fá hátt á annað þúsund atkvæði gerð ógild. Til að ná þessum ógildingum var beitt umdeilanlegum formsatriðum og lagaflækjum, en ekki látið nægja að atkvæði hafi verið greitt með réttum hætti á réttum tíma. Ólíkt glæpamönnunum var vitað að hermennirnir voru almennt stuðningsmenn Bush. Þriðja atriðið sem nefna má hér er að kjósendur í Norð-Vesturhluta Flórída, sem er á öðru tímabelti en meginhluti ríkisins, fengu um það fréttir áður en kjörstöðum lokaði að Gore hefði þegar unnið. Þessar „fréttir“, sem útvarpað var í stærstu fjölmiðlum landsins, voru vitaskuld rangar en höfðu þó þau áhrif að fjöldi kjósenda hætti við að greiða atkvæði. Samkvæmt varfærnu mati tapaði Bush 10.000 atkvæðum á þessum ótímabæru og röngu fréttum, en í þessum hluta ríkisins eru mun fleiri stuðningsmenn Repúblikana en Demókrata. Þau atkvæði sem þarna voru ekki greidd komu vitaskuld ekki til álita í sífelldum endurtalningum í ríkinu, hvorki endurtalningunum sem fram fóru á hinum 36 örlagaríku dögum né þeim endurtalningum sem fram hafa farið síðan. Þrátt fyrir þetta hefur Bush orðið ofan á í hverri einustu endurtalningu og segir það nokkuð um málstað Gores.

Kosningarnar milli Bush og Gores voru ekki fyrstu forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þar sem mjótt var á munum. Þegar John F. Kennedy og Richard Nixon tókust á árið 1960 var ástandið svipað og þá gerðist það, líkt og fjörutíu árum síðar, að efasemdir urðu um úrslitin. Grunur lék á um að menn Kennedys hefðu haft rangt við í Chicago undir leiðsögn þáverandi borgarstjóra, Richard J. Daley, og þannig tekist að sigra Nixon. Í dag er raunar talið víst að um svindl hafi verið að ræða, látnir menn hafi til að mynda greitt atkvæði, en Nixon tók á þeim tíma þá afstöðu að hafast ekkert að vegna málsins. Nixon, sem vinsælt þykir í dag að líta á sem versta þrjót, ýtti þar eigin hagsmunum til hliðar fyrir hagsmuni sem hann taldi mikilvægari. Hvort það er gráglettni örlaganna eða eitthvað annað sem olli því skal ekki fullyrt um hér, en það var einmitt sonur svindlarans frá Chicago, William Daley, sem stýrði þessari kosningabaráttu Gores, þar með talið hæpnum aðgerðunum í Flórída.

Bush og Laura á góðri stund
Bush og Laura á góðri stund

Bush hefur á því ári sem liðið er frá því hann tók við embætti afsannað býsna margar stórar fullyrðingar orðháka á vinstri vængnum á Vesturlöndum, sérstaklega í Evrópu, þar með talið á Íslandi. Bush var sagður óreyndur og alls ófær um að framkvæma utanríkisstefnu af nokkru viti. Síðan hefur hann sannað sig á alþjóðavettvangi með eftirminnilegum hætti og hrakspár um þær aðgerðir sem hann hefur ráðist í þar hafa ekki gengið eftir. Þeir sem töldu til að mynda að hann ætti að reyna að ræða við Talibana uns þeir framseldu Osama bin Laden ættu nú að sjá að slíkt var aldrei mögulegt. Augljóst er, sé á annað borð ástæða til að reyna að sundurgreina þetta tvennt, að það var Al Qaida en ekki stjórn Talibana sem öllu réð í Afganistan. Hryðjuverkasamtökin voru bæði fjölmenn og vel vopnum búinn og ekki á þeim buxunum að gefast upp.

Innanlands hefur Bush líka látið til sín taka og þar hafa hrakspárnar ekki heldur gengið eftir. Hann hefur verið fylginn sér og náð fram málum sem fáir aðrir hafa gert. Má þar sérstaklega nefna skattalækkanir. Nú vilja ýmsir hækka skattana aftur en hann gefur mönnum engar vonir um að hann muni fallast á slíkt og segir skattahækkanir ekki koma til greina og skattalækkanirnar standi. Reynsla síðasta árs hefur sýnt að hann er manna líklegastur til að standa við fyrirheit um að hækka ekki skatta.