Laugardagur 19. janúar 2002

19. tbl. 6. árg.

Íslenskir fjölmiðlar birta oft fréttir þess efnis að samkvæmt skoðanakönnunum hafi stuðningur fólks eða ákveðinna hópa við Evrópusambandið eða evru aukist lítillega frá einhverri annarri könnun. Þegar fréttirnar eru skoðaðar kemur svo yfirleitt í ljós að breytingin er eitt eða tvö prósent og úrtakið í könnuninni voru framkvæmdastjórar iðnfyrirtækja í Helsinki eða háskólamenntaðar konur á Skáni eða álíka. En einhvern veginn rata þessar „fréttir“ í íslenska fjölmiðla, jafnvel á forsíður og í fréttayfirlit. Og með álíka undarlegum hætti þá er eins og gagnstæðar fréttir, það er fréttir um minnkandi stuðning við Evrópusambandið og evruna, þyki minna fréttaefni.

Hver hefur til dæmis heyrt íslenska fjölmiðlamenn slá því upp að eftir að evran hefur verið tekin upp á meginlandi Evrópu hefur andstaða við hana beinlínis vaxið í Bretlandi? Á dögunum voru þannig kynntar niðurstöður viðamikillar könnunar á viðhorfum Breta til evrunnar og samkvæmt henni eru 73 % þjóðarinnar andvíg hinni sameiginlegu mynt en 21 % telja að Bretar ættu að vera með í henni og hefur munurinn milli þessara fylkinga næstum aldrei verið meiri. Þrátt fyrir þetta telja margir Bretar að þeir komist ekki hjá því að taka evruna í notkun en mikill meirihluti þeirra, sem það telja, segist halda það vegna þess að stjórnvöld muni draga þá inn í það nauðuga viljuga. Breskir hagsmunir verði þar að víkja.

Nei svona kannanir rata ekki svo auðveldlega í íslenska fjölmiðla. En öðru máli virðist gegna um það sem setja kann evruna eða Evrópusambandið í jákvætt samhengi. Hins vegar er rétt að taka fram, að skýringin er ekki nauðsynlega sú að íslenskir fjölmiðlamenn séu í látlausri leit að já-fréttum af evrunni en loki augunum fyrir nei-fréttunum. Hér spilar auðvitað inn í að áhrifamiklir íslenskir aðilar verja gríðarlegu fé og tíma í að plægja akurinn fyrir evruna og Evrópusambandið og verður hér sérstaklega að geta Samtaka iðnaðarins en frá þeim samtökum streymir ótrúlegt flóð „fréttatilkynninga“ af sigurgöngu evrunnar. Þetta er sérstaklega umhugsunarvert í ljósi þess að samtökin eru rekin fyrir skattfé, líka skattfé þeirra sem ekki kæra sig um evruna eða aðild Íslands að Evrópusambandinu. Og margar tilkynninganna virðast teknar athugasemdalaust inn í íslenska fjölmiðla, jafnvel birtar þar ásamt sérstökum „fréttum“ af nýjasta leiðara Sveins Hannessonar í fréttablaði Samtakanna hverju sinni.

Að lokum og til gamans þetta: Í vikunni var send út sérstök fréttatilkynning á fjölmiðla enda höfðu stórtíðindi orðið sem íslenskan almenning varðaði um: „Ágæti viðtakandi. Mig langar að vekja athygli þína á nýrri frétt á vefsetri Samtaka iðnaðarins en þar kemur fram að í leiðara norska blaðsins Fiskaren í dag kemur fram að sæki Ísland um aðild að ESB eigi Noregur að gera það líka.“ Undir þetta ritar svo Haraldur Dean Nelson, „upplýsingastjóri“ Samtaka iðnaðarins.

Þá vita Íslendingar það. Einhver á Fiskaren telur að sæki Ísland um aðild að Evrópusambandinu að þá eigi Noregur að gera það líka. Lesendum gerist að taka mið af þessu framvegis.