Mánudagur 7. janúar 2002

7. tbl. 6. árg.

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um það hvort Björn Bjarnason menntamálaráðherra skipti um starfsvettvang og taki að sér að leiða sjálfstæðismenn í komandi borgarstjórnarkosningum. Fyrstu fréttir af slíkum hugleiðingum Björns bárust á fyrri hluta síðasta árs og jafnskjótt urðu þau óvæntu tíðindi að forystufólki R-listans varð mjög umhugað um velferð Ingu Jónu Þórðardóttur, núverandi oddvita minnihlutans. Sá virðingarverði maður, Hrannar B. Arnarsson, mætti til dæmis í sjónvarpið og taldi það sérstaka „rýtingsstungu í bakið á Ingu Jónu“ að Björn svo mikið sem minntist einu orði á mál sem þessi. Sami Hrannar hefur hins vegar í tæp átta ár stært sig af því að hafa á sínum tíma staðið fyrir sérstakri skoðanakönnun sem hafi hvorki meira né minna ne orðið til þess að ljúka sjálfstæðu lífi vinstri flokkanna sem áður höfðu boðið fram til borgarstjórnar Reykjavíkur.

Nú þarf auðvitað enginn að ímynda sér að R-listamenn hafi miklar áhyggjur af velferð Ingu Jónu Þórðardóttur eða að það hvarfli í raun að nokkrum manni að Björn hafi rekið rýting eða önnur vopn í bakið á henni með því að hugleiða framboð til borgarstjórnar. Miklu nærtækari er sú skýring að vinstri menn óttist að þurfa að glíma við Björn Bjarnason enda sjái þeir eins og aðrir að þar er alvöru forystumaður á ferð, hvað svo sem mönnum kann að finnast um einstök verk hans í stjórnmálum.

En Björn er ekki eini maðurinn sem mun vera að hugleiða að skipta um starfsvettvang. Ef marka má fréttir er sendiherra Íslands í Washington, Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi fjármálaráðherra, nú mjög að velta fyrir sér að flytja heim og taka við forystu Alþýðuflokksins á nýjan leik. Mun Jón Baldvin mjög ræða þessi mál við ráðgjafa sína, Ámunda Ámundason og Jakob Frímann Magnússon og falla þar eflaust mörg spakleg orð um snilld Jóns. Ekki hefur þó enn borið á því að menn hafi tekið þessum vangaveltum Jóns sem sérstakri rýtingsstungu í bak núverandi forystu Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar, Margrétar Frímannsdóttur, Lúðvíks Bergvinssonar og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, enda segist Jón aðeins snúa heim fyrir grátbeiðni þessa mæta fólks.

Og af því hugsanleg endurgerð Jóns Baldvins til forystu í Alþýðuflokknum – eða Samfylkingunni eins og hann kallar sig þessa dagana – er á engan hátt rýtingsstunga eða vantraust í garð núverandi forystu þá er engin ástæða til að setja sig upp á móti henni. Og það sem meira er, af því að Vefþjóðviljinn hefur ekki nema mátulega mikla trú á því að aukin áhrif umræddar Samfylkingar á landsmálin yrðu til góðs, þá er honum ánægja að lýsa því yfir að honum líst bráðvel á þá hugmynd að fá Jón Baldvin Hannibalsson til að leiða hana í framtíðinni. Eða hvernig gekk Alþýðuflokknum undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar – það er að segja þegar horft er á staðreyndir en ekki aðeins stuðst við draumaheim nokkurra hrifnæmra manna?

Í alþingiskosningunum 1978, undir forystu Benedikts Gröndals, fékk Alþýðuflokkurinn 21,75 % fylgi.
Í alþingiskosningunum 1979, undir forystu Benedikts Gröndals, fékk Alþýðuflokkurinn 17,43 % fylgi.
Í alþingiskosningunum 1983, undir forystu Kjartans Jóhannssonar, fékk Alþýðuflokkurinn 11,7 % fylgi.
Í alþingiskosningunum 1987, undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fékk Alþýðuflokkurinn 15,23 % fylgi.
Í alþingiskosningunum 1991, undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fékk Alþýðuflokkurinn 15,50 % fylgi.
Í alþingiskosningunum 1995, undir forystu Jóns Baldvins Hannibalssonar, fékk Alþýðuflokkurinn 11,23 % greiddra atkvæða. Það er minna en fiskaðist hjá Kjartani Jóhannssyni og þá þótti nú kallinn í brúnni ekki beisinn.

Já því ekki að fá Jón Baldvin til að leiða Samfylkinguna? Maðurinn sem skilaði Alþýðuflokknum utan stjórnar, með 11 % fylgi og flesta forystumennina horfna á ríkisjötuna og fór þá sjálfur út sem sendiherra, gæti hann ekki verið maðurinn sem Samfylkinguna vantar?