Þriðjudagur 8. janúar 2002

8. tbl. 6. árg.

Frá breiðasta stræti veraldar, Breiðstræti 9. júlí í Buenos Aires.
Frá breiðasta stræti veraldar, Breiðstræti 9. júlí í Buenos Aires.

Eitt stærsta bankarán sögunnar fer nú fram í Argentínu. Frá árinu 1991 hefur þeim sem nota argentínska pesóinn verið heitið einum Bandaríkjadal fyrir hvern Argentínupesó. Framan af tíunda áratugnum veitti þetta fyrirkomulag Argentínu nauðsynlegan stöðugleika til að koma efnahagslífinu á réttan kjöl eftir langvarandi óðaverðbólgu. Eftir gengisfall brasilíska realsins árið 1997, útgjaldaaukningu og stórkostlega skuldasöfnun argentínska ríkisins ásamt skattahækkunum frá árinu 1999 hefur leiðin hins vegar legið niður á við. Ekki hefur bætt úr skák að stjórnvöld hafa á síðustu misserum gefið því undir fótinn að tenging pesóans við dalinn verði afnumin. Og nú hefur argentínska þingið samþykkt frumvarp um að lækka gengi pesóans gagnvart Bandaríkjadal um 30%. Með öðrum orðum verður 30% af bankainnistæðum landsmanna og öðrum eignum þeirra í pesóum stolið – með lögum.

Þessi ránsaðferð er svo sem ekki ný af nálinni. Seðlaprentun er eitt algengasta form skattheimtu. Ástæðan fyrir því að hægt er að skattleggja almenning með þessum hætti er einfaldlega sú að hið opinbera hefur tekið sér vald til að gefa út gjaldmiðil – og oftar en ekki er um einkarétt til myntsláttu að ræða. Það er hins vegar ekkert náttúrulögmál að ríkið þurfi að sjá mönnum fyrir gjaldmiðli. Einkaaðilar hafa oft veitt þessa þjónustu með góðum árangri. Einkaaðildar stunda þessa þjónust með óbeinum hætti í dag. Bankar gefa til dæmis út ferðatékka. Ekki er mikill munur á hefðbundinni seðlaprentun og útgáfu ferðatékka. Slíkir tékkar eru teknir góðir og gildir um allan heim séu útgefendurnir bankar sem njóta trausts. Jafnvel smábankar á Íslandi geta gefið slíka tékka út. Þetta er dæmi um einkaseðlaprentun sem gengið hefur vel.

Einkareknu seðlabankarnir gáfu flestir fyrirheit um að myntina mætti leysa út fyrir ákveðið magn af gulli eða silfri eða jafnvel kopar. Einkabankar sem gefa út seðla hafa starfað í ýmsum löndum á ýmsum tímum. Sem dæmi má nefna Skotland á árunum 1716 til 1844, Nýja England á árunum 1820 til 1860, Kanada á árunum 1817 til 1914 og Kína 1644 til 1928. Einkabanka í seðlaútgáfu hefur raunar mátt finna í yfir 60 löndum. Þegar þessi saga eru skoðuð virðist útgáfa peninga á vegum einkabanka oftast hafa verið farsæl. Þar sem samkeppni var milli banka um seðlaútgáfu var það hagur bankanna að seðlum þeirra mætti skipta fyrir seðla annarra banka, á sama hátt og það er hagur banka í dag að viðskiptavinir geti tekið út fé í hvaða hraðbanka sem er.

Tveir Argentínupesóar, ja eða svona tæplega einn og hálfur.
Tveir Argentínupesóar, ja eða svona tæplega einn og hálfur.

Binding við gull eða aðra málma hélt einnig aftur af möguleika bankanna til seðlaprentunar og dró úr hættu á verðbólgu. Einkabankar geta auðvitað sett prentvélarnar í gang eins og seðlabankar á vegum ríkisins hafa gert, aukið framboð á seðlum, fellt þá í verði og valdið verðbólgu. En þeir gera það aðeins einu sinni. Einkarekinn seðlabanki þarf að halda viðskiptavinum sínum ánægðum eins og önnur einkafyrirtæki. Ef hann fellir gjaldmiðill sinn í verði með offramboði snúa viðskiptavinirnir sér annað. Seðlabanki ríkis sem hefur einkarétt á peningaútgáfu getur hins vegar leikið þetta aftur og aftur án þess að viðskiptavinir hans fái rönd við reist. Það er ef til vill ástæðan fyrir því að stjórnvöld um allan heim geta ekki hugsað sér að láta öðrum eftir að gefa út gjaldmiðla.

Þessu húsráði fjárþurfi ríkisstjórna fá Argentínumenn að kynnast þessa dagana. Jafnvel loforð um að menn geti leyst seðla ríkisins út í seðlum annars ríkis eru svikin.