Helgarsprokið 6. janúar 2002

6. tbl. 6. árg.

Það hefur lengi verið spáð fyrir um lok notkunar á jarðefnaeldsneyti, þ.e. kolvetni: olíu, kolum og gasi. Hvað höfum við ekki heyrt oft að við séum á síðustu dropunum? Framan af síðustu öld töldu menn einsýnt að þessir orkugjafar myndu einfaldlega klárast. Síðar hafa menn einnig talið nauðsynlegt að hætta notkun þeirra af umhverfisástæðum. Engu að síður er markaðshlutdeild annarra endurnýjanlegra orkugjafa en frá vatnsföllum aðeins um 2% í Bandaríkjunum. Mikið fé hefur verið lagt í þróun á nýjum endurnýjanlegum orkugjöfum frá orkukreppunni á áttunda áratugnum. Ríkisstjórn Clintons með Al Gore fremstan í flokki lagði mikla áherslu á þessi mál á átta ára valdatíð sinni með opinberum styrkjum, boðum og bönnum. Það endaði eins og menn vita með því að helsta tilraunastofan í þessum efnum – Kalifornía – varð rafmagnslaus. Þar spilaði að vísu „þriðja leiðin“ svonefnda einnig hlutverk en með breytingum á lögum og reglum um orkumarkað var verð frá orkuframleiðendum gefið frjálst en settar verðhömlur á smásölu til að „vernda neytendur“. „Já, það er allt í lagi að hafa frelsi en með smá taumhaldi.“ Þetta þýddi aðeins að þegar aukin eftirspurn og minna framboð hækkuðu verð til framleiðenda fóru smásalar á hausinn eða hættu að kaupa orku og neytendur hættu að fá rafmagn.

Í dag er 85% af orkuþörf jarðarbúa mætt með orku frá jarðefnaeldsneyti. Þeir eru jafnvel til sem telja að þetta hlutfall muni hækka á 21. öldinni. Meðal þeirra er Robert L. Bradley Jr. forstöðumaður Institute for Energy Research í Houston í Texas. Í grein sem Bradley ritaði í Ideas on Liberty nýlega segir hann að þegar betur sé að gáð vilji umhverfisverndarsinnar ekki nota endurnýjanlega orkugjafa. Þeir hafi snúist gegn nýtingu á helsta endurnýjanlega orkugjafanum, fallvötnum, á þeirri forsendu að náttúran eigi að vera „ósnortin“ og ekki megi hrófla við fiskgengd í ám. Umhverfisverndarsinnar hafi einnig lagst gegn því að vindmyllur séu reistar á „viðkvæmum“ svæðum. Sólarorkuver hafa einnig mátt þola gagnrýni þeirra fyrir að taka of mikið land. Þeir eru að sjálfsögðu einnig mjög andsnúnir kjarnorkuverum. Þá er orðið fátt um fína endurnýjanlega orkudrætti.

„Kolvetni eru að vinna á sem orkugjafi en ekki að klárast eins og heimsendaspámenn hafa haldið fram. Þekktar birgðir í olíulindum eru yfir tuttugu falt meiri en þegar menn hófu að skrá þær fyrir um hálfi öld. Birgðir af tjöruolíu (orimulsion), sem nýlega hefur verið gerð af markaðvöru eru meiri en af olíu. Birgðir jarðgass eru fimmfalt meiri en um miðjan sjöunda áratuginn. Kolabirgðir eru fjórfalt meiri en upphaflega var gert ráð fyrir um miðja síðust öld og tvöfalt meiri en samanlagðar birgðir olíu og gass ef miðað er við orkuinnihald. Hagfræðingar á sviði orkumála eru enn að leita án árangurs að vísbendingum um að jarðefnieldsneyti sé að klárast nú þegar vel á aðra öld er liðið frá því olíuöldin hófst“, segir Bradley í grein sinni. Hann heldur því raunar fram að á þeim 140 árum sem jarðarbúar hafi notað jarðefnaeldsneyti hafi þeir notað um 1% af því sem til er, 99% bíði enn eftir því að vera notuð.

Bradley rekur einnig í grein sinni hvernig tekist hefur að draga úr mengun frá bruna jarðefnaeldsneytis með betri hreinsun þess og bættum vélum og mengunarvörnum. Helstu þættir loftmengunar í borgum Vesturlanda, ósón, sót, köfnunarefnisoxíð, kolmónoxíð og brennisteinsdíoxíð hafa færst til betri vegar undanfarna áratugi. Þrátt fyrir aukin gæði hefur verð á jarðefnaeldsneyti lækkað verulega á síðustu öld. Útblástur koltvísýrings er enn sem komið er óhjákvæmilegur fylgifiskur bruna á kolvetnum. Koltvísýringur er í sjálfu sér ekki mengun en honum eru eignuð svonefnd gróðurhúsaáhrif. Nú vita menn ekki fyrir víst hvort útblástur koltvísýrings af manna völdum hefur áhrif á loftslag og þá hvort þau áhrif yrðu til góðs eða ills. En talið er að útblástur af manna völdum sé um 2% af heildarútstreyminu á jörðinni. Bradley bendir á að á meðan við neitum okkur ekki um að bæta efnahag okkar með nýtingu jarðefnaeldsneytis verðum við sífellt betur undir það búin að takast á við hugsanlegar afleiðingar aukinna gróðurhúsaáhrifa.