Laugardagur 5. janúar 2002

5. tbl. 6. árg.

Í upphafi síðasta árs minntist Vefþjóðviljinn á reglur sem þá höfðu verið settar til höfuðs hinum vinsælu áramótabrennum sem fólk hefur skemmt sér við um hver áramót. Hinar nýju reglur kváðu á um, að brennur mættu alls ekki loga lengur en í 4 klukkustundir – þá kæmi slökkviliðið -; á brennurnar mætti ekki fara nema sérvalið drasl og, sem sennilega þótti ekki síst áríðandi, á brennunum mátti ekki vera nema 30 til 40 gráða halli. Og, eins og oft er þegar nýjar bannreglur koma fram á sjónarsviðið, kom fram í fréttum að áramótabrennureglunar ættu ætt sína að rekja til Evrópusambandsins í Brussel. Af þessu tilefni leyfði Vefþjóðviljinn sér að geta þess, að þarna hefðu stjórnlyndir menn unnið einn smásigurinn enn og á einu litlu sviði til viðbótar hefði girðingin færst nær borgaranum.

Vefþjóðviljanum þótti þessar nýju reglur meðal annars athyglisverðar fyrir það að þær minntu á þá aðferð sem hefur gefist stjórnlyndum mönnum hvað best, að minnka frelsið í litlum áföngum, á afmörkuðu sviði í senn, þannig að fáir geri veður út af því. Einn og einn maður muni kvarta, einu sinni hver, og svo sé málinu lokið, reglan föst í sessi og hægt að snúa sér að næstu reglu. Þetta er einmitt það sem gerist svo oft. Hinn almenni borgari er að verða svo vanur hvers kyns reglum og fyrirmælum að fæstir virðast sjá ástæðu til að andmæla reglum sem ekki snúa að þeim sjálfum. En þegar fæstir mótmæla öðru en snýr beinlínis að eigin athafnafrelsi þá er ekki nema von að stjórnlyndum embættismönnum þyki þeir sjálfir hafa frítt spil.

Tóbaksvarnarlögin, þau eru dæmi um þetta. Allskyns fjölmiðlamenn þeir hafa risið upp gegn þeim, gott og vel. En gegn hvaða ákvæðum laganna? Jú, þeir eru á móti reglunni sem bannar umfjöllun um tóbak. Fjölmiðlamenn eru nefnilega miklir mannréttindamenn þegar kemur að tjáningarfrelsi fjölmiðlamanna. En hvað ætli fjölmiðlamennirnir hafi sagt um til dæmis þær stórfelldu skerðingu sem eigendur veitingahúsa verða að þola á eignarrétti og jafnvel atvinnufrelsi sínu, þegar settar eru í lög miklar bannreglur um reykingar á veitingahúsum? Um það segja fjölmiðlamenn ekki orð. Enda eiga þeir ekki veitingahús.

Og hver mótmælir reglum sem banna áramótabrennur sem loga lengur en í fjóra tíma? Æ já, hver þarf svo sem að vera svona lengi við brennuna? Já og er ekki bara best að þeir hjá borginni raði völdu drasli á brennuna, hafi þennan rétta halla og kveiki svo sjálfir í? Fólk getur svo bara komið á staðinn, sungið eitt lag og farið heim þegar slökkviliðið kemur. Hvers vegna að vera að þrasa um þetta? Tölum frekar um eitthvað uppbyggilegt, ha?

En við allar þessar smá-reglur, allar litlu bannreglurnar, færist girðingin nær borgaranum og hann verður alltaf vanari því að um alla hans hegðun gildi smásmyglilegar reglur. Borgarinn venst því að eiga meira og meira undir því að einhverjum embættismönnum, mönnum sem hann hefur aldrei heyrt nefnda og þaðan af síður nokkurn tíma kosið, – jafnvel embættismönnum í höfuðborg Belgíu – hafi ekki þóknast að banna það sem borgarann langar til að gera. Og eftir því sem vítahringurinn gengur lengra hættir borgarinn að mótmæla nema endrum og eins. Eða hvað? Tók kannski einhver eftir því að um þessi áramót hafi verið talað um reglur um áramótabrennur? Halda menn kannski að þær hafi verið felldar úr gildi?

Og ef menn vilja velta fyrir sér hvert næsta skref verður, þá má geta þess að fyrir ári var haft eftir stöðvarstjóra slökkviliðsins í Öskjuhlíð að áramótabrennur væru „á undanhaldi. Þær þykja mengunarvaldur. Þetta eru áhrif frá Brussel og hefðbundnar áramótabrennur hverfa fyrr en síðar ef að líkum lætur.“