Laugardagur 29. desember 2001

363. tbl. 5. árg.

Það er margt bölið. Ekki síst á aðfangadagsmorgun. Á það var bent í leiðara Morgunblaðsins í gær að hjá Ríkisendurskoðun hefðu konur fengið frí úr vinnu á aðfangadagsmorgun en ekki karlar. Þetta telur leiðarahöfundur til marks um að „hve lífseig þau gömlu viðhorf til hlutverka kynjanna eru, sem standa í vegi fyrir raunverulegu jafnrétti karla og kvenna á vinnumarkaðnum.“ Og ekki nóg með það: „Með ákvörðun af þessu tagi er enn og aftur verið að undirstrika að konur beri meginábyrgðina á heimilishaldinu, en hlutverk karlsins sé að vinna fyrir heimilinu. Vinnustaðurinn megi missa konurnar þennan hálfa dag, en ekki karlana. Á meðan þessi viðhorf eru ríkjandi, meira að segja hjá stjórnendum opinberra stofnana, er vonlítið um að karlar og konur séu metin að verðleikum og af verkum sínum á vinnumarkaðnum, en ekki út frá gömlum gildum um hlutverk þeirra á heimilinu.“

Nú má auðvitað velta því fyrir sér hvernig jólahátíðin hefur verið hjá þeim geðvonskuhundi sem sest niður milli jóla og nýárs og skrifar þetta fjas um þessa ágætu kurteisisvenju karlmanna hjá Ríkisendurskoðun að leysa starfsystur sínar af á aðfangadagsmorgun. Hvernig dettur mönnum í hug að þessi greiðvikni karla hjá Ríkisendurskoðun sýni að störf kvennanna séu minna metin? Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að blaðamenn á Morgunblaðinu þekki til starfshátta í íslenskum fyrirtækjum á aðfangadagsmorgun enda er engin starfsemi þennan morgun á Morgunblaðinu. Það er hins vegar kunnara en frá þurfi að segja að þeir sem mæta til vinnu á aðfangadagsmorgun þurfa sjaldan að taka á honum stóra sínum. Það má því allt eins segja að fyrirtæki og stofnanir þurfi ekki á sínum bestu starfsmönnum að halda á þessum morgni og því hafi konurnar fengið frí. Það er ekki síður greindarleg kenning en kenning leiðarahöfundarins.

En í geðvonskukastinu telur leiðarahöfundurinn ekki aðeins að Ríkisendurskoðun ali á fordómum gagnvart konum. Nei, stofnunin mun einnig hafa brotið lög „með ákvörðun af þessu tagi“. Nánar tiltekið eru það jafnréttislög sem sjálf Ríkisendurskoðun á að hafa traðkað á með því að þar starfa karlmenn sem kunna sig. „Vilji Alþingis er hins vegar skýr hvað varðar tilvik eins og það, sem nú hefur komizt í hámæli“, segir í leiðaranum. Ákvæðið í jafnréttislögum sem leiðarahöfundurinn vísar í er að konur og karlar sem vinna jafnverðmæt og sambærileg störf hjá vinnuveitenda skuli njóta sömu launa og kjara. Þetta ákvæði á Ríkisendurskoðun að hafa brotið með því að konur þurftu ekki að mæta í vinnuna á aðfangadagsmorgun!

Vef-Þjóðviljinn leyfir sér að draga þessa miklu kenningu leiðarahöfundarins saman í eina málsgrein: Karlmenn á Ríkisendurskoðun sýndu konum þar á bæ lítilsvirðingu með því að gera þeim greiða á aðfangadagsmorgun og brutu um leið jafnréttislögin – á sjálfum sér.