Framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands lagði það til í útvarpsfréttum í gær að þau „sveitarfélög sem nýttu“ sér þjónustu hljómsveitarinnar legðu fram fé til reksturs hennar. Nú hlýtur framkvæmdastjórinn að hafa átt við að íbúar þessara sveitarfélaga nýti sér þjónustu sveitarinnar og eigi því að greiða fyrir rekstur hennar því varla fer sveitin á bæjarstjórnarfundi og spilar fyrir sveitarstjórnamenn. Þetta er því mikil afbragðs hugmynd.
Það er auðvitað eðlilegt að þeir sem nýta sér þjónustu af þessu tagi greiði fyrir hana sjálfir. Hér eru haldnir hvers kyns tónleikar árið um kring og í flestum tilvikum greiða tónleikagestir að öllu leyti fyrir flutninginn við innganginn. Sinfóníuhljómsveitin fær hins vegar greitt úr ríkiskassanum en í hann greiða ekki aðeins gestir á tónleikum hennar heldur einnig hin 99% landsmanna sem sitja heima eða eru jafnvel á öðrum tónleikum þegar tónleikar hennar fara fram.
Það er sanngirnismál að þær 240 milljónir króna sem skattgreiðendur greiða með Sinfóníuhljómsveit Íslands á hverju ári verði færðar yfir á þá sem nýta sér þjónustuna. Aðrar tekjur hljómsveitarinnar í dag eru um 190 milljónir króna. Það liggur því í augum uppi að aðgöngumiðinn þyrfti að hækka verulega ef skattgreiðendur hættu að styrkja sveitina og þeir sem nýta sér þjónustu hennar tækju við. Unnendur sígildrar tónlistar vilja þó vart kosta minna til en unglingar sem fara á popptónleika. Átta tónleika áskriftarröð sem kostar tæpar 16 þúsund krónur í dag þyrfti sennilega að hækka í svipað verð og árskort í líkamsræktarstöð.