Helgarsprokið 30. desember 2001

364. tbl. 5. árg.

Hið opinbera leggur sem kunnugt er talsvert af mörkum til að koma í veg fyrir eðlileg samskipti og viðskipti borgaranna. Líklega er þó engin stofnun eins einbeitt í því að þvælast fyrir fólki og sú stofnun sem nú ber nafnið Samkeppnisstofnun en var áður nefnd Verðlagsstofnun. Við áramót er þess vegna ekki úr vegi að minna á að þessi stofnun er versta stofnun landsins og fara um leið stuttlega yfir nokkur verk hennar og þær ranghugmyndir sem hún starfar eftir.

„Í raunveruleikanum er fullkomin samkeppni ekki í boði, en þar er hægt að fá frjálsa samkeppni. Frjáls samkeppni er það besta sem menn geta gert sér vonir um í ófullkomnum heimi og niðurstaða hennar hefur alla tíð fært mönnum meiri velsæld en niðurstaða annarra aðferða við að uppfylla þarfir almennings.“

Hörð samkeppni á matvörumarkaði er vel þekkt og kemur til að mynda fram í hraðri fæðingar- og dánartíðni verslana og mikilli baráttu um viðskiptavini, til dæmis með auglýsingum um hagstætt verð. Samkeppnisstofnun fann sig þó knúna til að sækja að matvöruverslunum og til að geta sýnt fram á að verð á matvöru hefði hækkað meira en annað verðlag var valið tiltekið árabil, ársbyrjun 1996 til ársbyrjunar 2000. Eins og bent hefur verið á hér á síðunni hefðu ýmsir aðrir byrjunar- og lokapunktar, sem væru síst óeðlilegri, sýnt allt aðra niðurstöðu. Þá lítur Samkeppnisstofnun ekki til bættrar þjónustu, svo sem lengri afgreiðslutíma, eða þess að matvaran lækkaði í fyrra miðað við aðrar vörur. Þetta passaði ekki inn í samsæriskenningarnar.
Til viðbótar má benda á breytingu á útreikningi á matvöru í vísitölu neysluverðs sem Hagstofan gerði fyrr í þessum mánuði, en sú breyting varð til að vísitalan lækkaði. Frekari skoðun fer nú fram á þessum útreikningum og mun hún líklega leiða í ljós enn meira ofmat á verðhækkun matvöru. Hefði Samkeppnisstofnun verið minna upptekin af samsæriskenningum og ef hún teldi það ekki sitt helsta markmið að vinna gegn stórum og vel reknum fyrirtækjum hefði stofnunin ef til vill skoðað vísitöluna betur, enda grundvallaratriði í slíkum rannsóknum að vísitölur séu rétt saman settar.

Samkeppnisstofnun veit ekki aðeins hvert verðið á að vera á matvörumarkaði, hún veit líka hvernig best er að haga stærð og fjölda fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þess vegna bannaði hún samruna Búnaðarbankans og Landsbankans fyrir um einu ári, en hafði nokkru áður náðarsamlegast leyft samruna Íslandsbanka og FBA. Síðarnefndi samruninn fékk sem betur fer náð fyrir formúlum stofnunarinnar þó úr yrði stærsti banki landsins, en sá fyrrnefndi var sem sagt stöðvaður þó niðurstaðan yrði hin sama. Það stafaði af því að Samkeppnisstofnun taldi sameinaðan Búnaðar- og Landsbanka ná „markaðsráðandi stöðu“ á ákveðnum sviðum. Í úrskurðinum var ekkert litið til þess að fjármálamarkaðurinn er frjáls og erlend samkeppni vofir sífellt yfir. Ekki var heldur litið til þess að ÍslandsbankiFBA var eftir sem áður afar öflugur og að fjöldi sparisjóða hafði starfað um áratugaskeið í samkeppni við sér miklu stærri innlánsstofnanir, sem hefði mátt vera vísbending um að stærðin er ekki hið eina sem máli skiptir. Á það hefur verið bent að þarna hafi verið um að ræða tvo ríkisbanka og að heppilegra sé að ríkið selji þá fyrst og láti svo markaðsöflin um að ákveða um framhaldið, þar með talið um samruna eða ekki. Til sanns vegar má færa að heppilegra sé að einkaaðilar sjái um hagræðingu í fyrirtækjarekstri en ríkið. Úrskurður Samkeppnisstofnunar snerist hins vegar ekkert um að ríkið væri meirihlutaeigandi að bönkunum. Vilji einkaaðilar sameina þessa banka eftir að þeir eru komnir úr meirihlutaeign ríkisins og þess er ef til vill ekki langt að bíða munu þeir væntanlega lenda í sömu erfiðleikum með Samkeppnisstofnun og núverandi meirihlutaeigandi.

Prentmarkaðurinn er ekki síður á sérsviði starfsmanna Samkeppnisstofnunar en fjármálamarkaðurinn. Er reyndar stórfurðulegt að menn sem hafa slíka sérþekkingu á öllum markaðsaðstæðum skuli ekki hella sér út í fyrirtækjarekstur í stað þess að starfa á ríkisstofnun. Hvað um það, fyrir nokkru hugðist eigandi prentsmiðju nokkurrar selja þessa prentsmiðju eiganda annarrar prentsmiðju. Kaupandinn, Prentsmiðjan Oddi, var hins vegar of umsvifamikill á markaðnum að áliti Samkeppnisstofnunar svo hún tók þann kost að þvælast fyrir þessum kaupum. Ein af röksemdum stofnunarinnar var að ekki ætti að gera ráð fyrir samkeppni frá erlendum prentsmiðjum og gilti þá einu þó þær prentuðu umtalsverðan hluta íslenskra bóka. Síðan hefur prentun í erlendum prentsmiðjum farið vaxandi og afar auðvelt er að eiga viðskipti við þær prentsmiðjur. Raunar virðist litlu skipta fyrir þá sem prenta íslenskar bækur hvort prentsmiðjan er í Eistlandi eða á Íslandi og þess vegna augljóst nema fyrir þá sem vinna á Samkeppnisstofnun að jafnvel langstærsta prentsmiðja landsins býr við harða samkeppni erlendis frá og myndi ekki losna undan henni þó hún yrði eina starfandi prentsmiðjan í landinu.

Verðlagsstofnun hin nýja er engu betri en sú gamla og jafnvel verri að því leyti að völd hennar til að grípa inn í eðlilega starfsemi á markaðnum eru afar mikil. Fyrir utan heimildir til að banna samruna og spilla þannig fyrir eðlilegri hagræðingu á markaði, getur þessi stofnun ruðst fyrirvaralaust inn í fyrirtæki einkaaðila og fjarlægt þaðan öll þau gögn sem henni hentar, þar á meðal tölvupóst starfsmanna. Nú yfir jólin má til að mynda gera ráð fyrir að einhverjir starfsmenn Samkeppnisstofnunar hafi dundað sér við að lesa viðkvæm einkamál starfsmanna olíufélaganna þriggja og má reikna með að sumum sé heldur illa við að vita af þeim lestri. Ríkar ástæður hlýtur að þurfa til að rekin sé stofnun sem starfar aðallega að því að hamla eðlilegri markaðsstarfsemi og hnýsast í einkamál almennings. Engar slíkar ástæður hafa þó komið fram og verður því ekki séð að stofnunin eigi sér nokkurn tilverurétt. Stofnunin starfar eftir kenningum sem byggja á algerum misskilningi á grundvallarlögmálum markaðarins og gera til dæmis ekki ráð fyrir neinni framþróun eða breytingu heldur algerri stöðnun. Stofnunin reynir að hrinda í framkvæmd kenningunni um „fullkomna“ samkeppni, sem er fyrirbæri sem fjallað er um í kennslubókum og er þar til útskýringar á starfsemi markaðarins, en ekki til að menn trúi á hana í blindni eða reyni að troða henni upp á raunveruleikann. Í raunveruleikanum er fullkomin samkeppni ekki í boði, en þar er hægt að fá frjálsa samkeppni. Frjáls samkeppni er það besta sem menn geta gert sér vonir um í ófullkomnum heimi og niðurstaða hennar hefur alla tíð fært mönnum meiri velsæld en niðurstaða annarra aðferða við að uppfylla þarfir almennings. Samkeppnisstofnun mun aldrei geta bætt frjálsa samkeppni á markaði og því víðtækari sem heimildir hennar eru og því ofstopafyllri og sjálfumglaðari sem starfsmennirnir eru, þeim mun verri verður niðurstaðan af afskiptum stofnunarinnar.