Laugardagur 15. desember 2001

349. tbl. 5. árg.

Málefnafátækt vinstri manna er gömul saga en ekki síst ný. Í stað þess að verja vondan málstað sinn og hrapalegar afleiðingar hans reyna þeir jafnan að draga athygli manna að einhverju enn fáránlegra. Vinstri menn í borgarstjórn Reykjavíkur leika þennan leik út í ystu æsar. Í hvert skipti sem þeir klúðra málum í rekstri borgarinnar er rokið af stað í nýja herferð. Og herferðirnar verða æ lygilegri. Hver man ekki eftir herferðinni gegn útigangsköttum? Nagladekkjunum? Eða stríðinu gegn tyggjóklessum?

Nýlegt dæmi af þessum leik vinstri manna í borgarstjórn eru viðbrögð þeirra við umræðunni um sölu á fyrirtækinu „Línu.net“. Hallarekstur þeirra og skuldasöfnun í þessari fjarskiptastarfsemi á samkeppnismarkaði hefur orðið til þess að þær raddir verða æ háværari sem krefjast þess að borgin losi sig úr Línunetinu og selji ósköpin, ef einhver vill kaupa. Nú eru góð ráð dýr. Ekki er hægt að rökræða um vandann, enda gæluverkefnið slík óverjandi peningahít og þannig sóun á almannafé að slík átök eru jú fyrirfram töpuð. Þess í stað var þrammað fram með sölu á Perlunnni. Það mál þoldi auðvitað ekki nokkra bið enda var R-listinn búinn að reka Perluna í sjö ár. Sjö ár eru auðvitað ekki langur tími til að kveikja á perunni í stjórn Orkuveitunnar eins og hún er skipuð um þessar mundir.

Rétti tíminn til að ræða húsasöluna var auðvitað núna. Ekki fyrr á kjörtímabilinu, t.d. áður en borgarbúar fóru að krefjast þess að „Lína.net“ yrði seld. Nei, þetta bráðnauðsynlega mál þarf náttúrulega að ræða alveg niður í kjölinn núna. Og á morgun. Og eins lengi eins og til þarf þangað til þessari óþægilegu Línuumræðu er örugglega lokið. Ef svo illa fer að borgarbúar ætli samt að halda áfram að atast í Línunni þá verður bara að fara í nýja herferð. Þessir menn sjá greinilega ekkert aumlegt við það að eyða fyrst öllu fé borgarbúa, hlaða skuldum á fyrirtæki og stofnanir borgarinnar, rétt eins og síðast þegar þeir komust til valda Nei, markmiðið verður að nást: Koma þessari leiðinlegu Línuumræðu út úr heiminum.