Helgarsprokið 16. desember 2001

350. tbl. 5. árg.

Þeir stjórnmálamenn íslenskir sem Vefþjóðviljinn hefur harðast gagnrýnt munu vera Geir H. Haarde og Björn Bjarnason. Óþarfi er hér að rifja upp það sem blaðið hefur talið sig eiga vansagt um núverandi fjármálaráðherra og hans störf en af Birni er það að segja að Vefþjóðviljinn hefur mjög kvartað yfir baráttu og baráttuaðferðum hans fyrir byggingu nýrrar tónlistarhallar á kostnað skattborgaranna og þá eru linnulausir „samningar“ Björns við þrýstihópa og jafnvel opinberar stofnanir orðnir vægast sagt hvimleiðir. En þó Vefþjóðviljinn hafi árum saman gagnrýnt Björn fyrir þessa hluti þá hefur það einnig verið viðurkennt að Björn hefur sitthvað til brunns að bera, umfram flesta kollega sína. Þó af ýmsu sé þar að taka verður hér látið nægja að geta þess að í meira en aldarfjórðung hefur Björn fjallað um íslensk utanríkismál af meira viti en aðrir menn og verið meðal þeirra sem vökulastir hafa verið fyrir því að öryggi landsins yrði ekki teflt í tvísýnu.

Eins og flestir muna stóðu lengi harðvítugar deilur um það hvort Ísland skyldi skipa sér í fylkingu með þeim vestrænu lýðræðisþjóðum sem kusu að bjóða alræðisríkjum kommúnista birginn eða hvort landið skyldi lýsa sig varnarlaust fyrir hverjum sem hafa vildi. Meðal þeirra sem einarðastir voru í baráttu fyrir fyrri skoðuninni var umræddur Björn Bjarnason og er óhætt að segja að með áhrifamiklum greinum sínum í Morgunblaðinu hafi hann um aldarfjórðungsskeið lagt mikið af mörkum til þess að geðfelldari stefnan varð ofaná. Nú hefur úrvali þessara greina verið safnað á bók sem Nýja bókafélagið gefur út nú fyrir jólin. Þessi bók, Í hita kalda stríðsins, geymir 40 greinar um utanríkismál og svo fróðlegar eru þær og greinargóðar að ósennilegt er að betra yfirlit fáist um kaldastríðsárin á Íslandi og þá baráttu sem þá stóð um örlög Íslands.

Björn Bjarnason var á fimmta ári þegar faðir hans, Bjarni Benediktsson, skrifaði fyrir Íslands hönd undir stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins. Fyrir þátt sinn í þessum málum mátti Bjarni árum saman sitja undir ofsafengnum persónulegum árásum vinstri manna í landinu, landráðabrigslum og beinum hótunum. Hefur það vafalítið sett mark sitt á hann og fjölskyldu hans og þá ef til vill ekki að undra að Birni Bjarnasyni hafi snemma orðið öryggis- og varnarmál landsins hugleikin. Í áranna rás hefur hann safnað sér geysilegri þekkingu á þeim málaflokki og hún leynir sér ekki í ritgerðasafni hans.

Nú er því ekki að neita, að öryggis- og varnarmál höfða mismikið til fólks og allmargir sem vilja helst aldrei um þau hugsa. En jafnvel þeir sem lítinn áhuga hafa á þeim málum geta fundið sitthvað bitastætt í ritgerðasafni Björns. Þar eru til dæmis persónulegar frásagnir af ferðum og atvikum sem hafa greinilega haft talsverð áhrif á höfundinn og má þar nefna stutta grein um kvöldheimsókn Björns til hins heimskunna andófsmanns, Andreis Sakharovs og konu hans, Yelenu Bonner, á heimili þeirra í Moskvu og ekki síður frásögu Björns af ferð sinni og Kjartans Gunnarssonar til púðurtunnunnar Beirút í Líbanon í febrúar og mars 1981. Sú ritgerð, sem er einar 35 blaðsíður, er ferðasaga af bestu gerð þar sem afskaplega athyglisverð frásögn er krydduð með tilvitnunum í Biblíuna, Snorra Sturluson og jafnvel Grím Thomsen og víst má það vera viðeigandi að diplómatinn Grímur fái inni í ritgerðasafni um utanríkismál, þó hann hafi að sönnu starfað innan danskrar utanríkisþjónustu en ekki íslenskrar.

Þá er fjallað um önnur utanríkismál en bein varnarmál og meðal nýlegra efnis má nefna grein Björns um stofnfund Samtaka gegn EES-samningnum þar sem aðalræðumenn voru Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Árni Bergmann og fleiri spekingar. En það eru öryggis- og varnarmálin sem sitja í öndvegi í bókinni enda er hún bæði kennd við kalda stríðið og þann hita sem var í deilunum um það á Íslandi.

Forvitnilegt er einnig hvernig margar persónur, sem hátt höfðu á sínum tíma og börðust með ýmsum meðulum, eru enn áberandi í stjórnmálaumræðunni þó þær geri nú mismikið með sína fyrri afstöðu. Ólafur Ragnar Grímsson, sem nú er elskaður þjóðhöfðingi Íslendinga og fer sem slíkur um allar jarðir til að samgleðjast nýfrjálsum þjóðum sem fengið hafa aðild að Atlantshafsbandalaginu, leggur til dæmis takmarkaða áherslu á að halda á lofti hvernig hann reyndi árum og áratugum saman að ala á tortryggni í garð þessa sama bandalags heima á Íslandi. Þá er skondið að lesa frásagnir Björns af skrifum Jóns Ásgeirs Sigurðssonar á síðu herstöðvaandstæðinga í Þjóðviljanum, þar sem Jón Ásgeir sparaði ekki stóru orðin vegna svikaranna sem fléttuðu Ísland „inn í kjarnorkustríðsnetið“ og lögðu „líf okkar allra að veði“. Eða hvað, er það ekki einmitt sá sami Jón Ásgeir og nú er formaður Starfsmannafélags Ríkisútvarpsins og telur sig oft þurfa að senda núverandi menntamálaráðherra tóninn?

Ritgerðasafn Björns Bjarnasonar hlýtur að mælast vel fyrir hjá öllum áhugamönnum um öryggis- og varnarmál.
Ritgerðasafn Björns Bjarnasonar hlýtur að mælast vel fyrir hjá öllum áhugamönnum um öryggis- og varnarmál.

Undanfarin ár hafa orð fallið í verði. Hverskyns rugludallar kalla hverjir aðra „snillinga“ og allskyns hrákasmíði er gjarnan dæmd sem „brakandi snilld“. Yfirborðskenndar blaðagreinar, jafnvel byggðar á tómum órum „ónafngreindra heimildarmanna“ í bland við staðreyndabrengl, misskilning, hæpnar flökkusögur og fráleitar samsæriskenningar, eru kallaðar „ýtarlegar fréttaskýringar“ og svo framvegis. Þegar þannig er komið verður erfitt að gefa bók eins og Í hita kalda stríðsins einkunn við hæfi. Hér verður engu að síður látið nægja að segja að hún sé feikilega greinargott og læsilegt rit frá höfundi sem þekki umfjöllunarefni sitt betur en flestir menn. Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur hafði frumkvæði að útgáfunni og í formála sínum segir hann frá því, að þrátt fyrir að deilurnar um öryggismál Íslands hafi verið svo hatrammar sem menn þekkja, þá hafi ekki þurft að víkja til aukateknu orði í greinum Björns Bjarnasonar frá því þær voru birtar og þar til þær eru nú endurprentaðar, allt að tuttugu og fimm árum síðar. Sú staðreynd segir líklega meira um Björn en það innihaldslausa gaspur sem Vefþjóðviljanum hefði svo sem getað hugkvæmst ef hann hefði reynt.