Föstudagur 14. desember 2001

348. tbl. 5. árg.

Vefþjóðviljinn hefur stundum látið að því liggja að sósíalismi 21. aldar verði ekki byggður á ásökunum um arðrán og kúgun verkalýðsins heldur munu ríkisafskipti, boð og bönn nýrrar aldar verða réttlætt með meintri rányrkju og misnotkun mannsins á náttúrunni. Þessi kenning hefur vissulega beðið nokkurn hnekki eftir að ný lög um fæðingarorlof voru samþykkt og krafa um „jafnrétti kynjanna“ var notuð til að réttlæta dýrasta og umfangsmesta sósíalisma Íslandssögunnar. En það er vonandi stundarbrjálæði og Vefþjóðviljinn heldur áfram að veðja á að sósíalismi í nafni umhverfisverndar verði einn helsti vandinn í upphafi aldar. Og innrætingin er þegar hafin í barnatíma Ríkissjónvarpsins.

Það eru liðin nokkur ár frá síðasta „Íslenskt, já takk“ átaki. Áróður gegn vörum á þeirri forsendu að þær séu erlendar hefur raunar vart heyrst undanfarin misseri. Það er jafnvel aðeins spurning um hvenær, en ekki hvort, innflutningur á landbúnaðarafurðum verður leyfður. Flestir hafa áttað sig á kostum alþjóðlegrar verkaskiptingar og sjálfsþurftarbúskapur er á undanhaldi. En þá lætur Ríkissjónvarpið framleiða 10 þætti fyrir börn undir nafninu Spírall þar sem rekinn er gegndarlaus áróður gegn innflutningi og alþjóðlegri verkaskiptingu. Síðasti þátturinn var sýndur og auðvitað endursýndur nú í vikunni. Eins og komið hefur fram eru þættirnir studdir af nokkrum aðilum sem njóta þess í jákvæðri umfjöllun.

Á þessum síðum hefur áður verið rakið hvernig höfundar Spírals hafa reynt að læða því inn hjá börnunum að innflutningur ávaxta og annarra matvæla skaði umhverfið og þau séu umhverfissóðar ef þau borða epli og annan mat sem kemur langt að. Sömuleiðis er því haldið að börnunum að kaup á fötum úr útlendum efnum eins og bómull séu slæm fyrir umhverfið. Í þættinum nú í vikunni var gerð atlaga að innfluttum jólatrjám. Um 20 þúsund íslenskar fjölskyldur hafa á síðustu árum keypt innflutt tré og það gengur ekki að mat Spíralsmanna: „Við getum dregið úr þessari tölu með því að kaupa íslensk tré og með því erum við að draga úr loftmengun, spara flutninga og draga úr dreifingu eiturefna.“ Já ljótt ef satt væri. Þá hefðu íslenskar fjölskyldur aukið loftmengun og tekið þátt í „dreifingu eiturefna“ með því að fá sér innflutt tré í stofuna yfir jólin. En þessar fullyrðingar Spíralsmanna standast auðvitað ekki nánari skoðun. Ekki frekar en aðrar kenningar þeirra. Hvers vegna eru innfluttu jólatrén ekki miklu dýrari en þau íslensku ef svo mikil orka fer í framleiðslu og flutninga á þeim?

Í síðasta Spíralsþættinum var að sjálfsögðu farið í heimsókn til góða fólksins í „vistvænu fjölskyldunni“. Fyrirmyndarþegnarnir upplýstu áhorfendur um að þeir fengju sér auðvitað íslenskt jólatré og keyptu aðeins íslensk jólakort. Fyrirmyndarmóðir umhverfisvænu fjölskyldunnar upplýsti áhorfendur einnig um að best væri að búa jólakortin til sjálfur í tölvunni og prenta þau út. Vefþjóðviljinn lýsir hér með eftir þeim sem selja íslenskar tölvur, íslenska prentara, íslensk dufthylki í íslenska prentara og endurunninn íslenskan pappír í íslenska prentarann. Það getur ekki staðist að vistvæna fjölskyldan hafi látið flytja allt þetta dót til landsins og þar með aukið loftmengun og „dreift eiturefnum“ um allar jarðir.

Í lok þáttarins kom skilti á skjáinn með eftirfarandi skilaboðum „Ef allir jarðarbúar hefðu sama lífsstíl og við þyrftum við FJÓRAR JARÐIR í viðbót.“ (Ritháttur er Spírals.) Þetta er líklega í fyrsta sinn sem sannleikskorn leynist í áróðrinum á skiltum þeirra Spíralsmanna. Fyrir daga verkaskiptingar og viðskipta milli þjóða hafði mannfjöldi á jörðinni lítið breyst í mörg þúsund ár. Það komust einfaldlega ekki fleiri af með sjálfsþurftarbúskap að hætti Spíralsmanna. Með aukinni sérhæfingu, auknum vöruflutningum milli landa og alþjóðlegum viðskiptum tók fólki að fjölga mjög ört. Nú er svo komið að aldrei fyrr hafa jafnmargir lifað jafnlöngu og jafngóðu lífi á jörðinni. Það er því rétt sem Spíralsmenn segja á þessu skilti sínu. Ef lífsstíll þeirra, altækur sjálfsþurftarbúskapur, yrði ofan á þyrfti fleiri jarðir til að koma öllu því fólki fyrir sem nú lifir góðu lífi á einni jörð.