Fimmtudagur 13. desember 2001

347. tbl. 5. árg.

Í fréttum DV í síðustu viku var sagt frá hugsanlegu „úthverfaframboði“ í næstu sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík. Í úthverfaframboðinu telja menn borgarstjórn ekki sinna úthverfum sem skyldi. Forsvarsmenn úthverfaframboðsins saka borgarstjórn um að reka 101-stefnu. Í 101 eru menn hins vegar mjög uppteknir af því hve borgarstjórn sinnir miðbænum illa. Svo vilja einhverjir eldri borgara fara í framboð til að ota sínum tota og unga fólkið segir að sér sé í engu sinnt og hefur farið í framboð í einhverjum sveitarfélögum með sín mál á oddinum. Íþróttamenn hafa einnig hnyklað framboðsvöðvana. Allt stendur þetta fólk í þeim misskilningi að afgreiða megi hagsmuni ólíkra einstaklinga á einu bretti ef finna má þeim samnefnara eins og aldur, áhugamál eða hverfi.

Þetta er vandi. Þetta er raunar vandi stjórnmálanna í hnotskurn. Það er erfitt að gera öllum til hæfis. Jákvæð viðleitni stjórnmálamanna til þess endar oftast með því að flestir eru óánægðir enda þarf að fjármagna öll nýju verkefnin með nýjum álögum. Neikvæð viðleitni til að gera öllum til hæfis – þ.e. að gera minna en áður, lækka skatta og fækka boðum og bönnum – er líklegri til að skila sér í almennri ánægju. Það er vegna þess að með minni umsvifum stjórnmálamanna eykst svigrúm annarra til að sinna sínum málum. Stjórnmálamenn eru ekki aðeins óæskilegir heldur óþarfir milliliðir á flestum sviðum. Þeir vita ekki – og geta ekki vitað – hvað brennur á fólki.

Ef matvörubúðir væru ekki á markaði heldur reknar af stjórnmálamönnum væri kosinn einn kaupmaður á nokkurra ára fresti. Hans hlutverk væri ekki aðeins að kaupa vörur inn í verslunina og bíða svo við búðarborðið eftir að menn kaupi það sem þá lystir. Nei, þessi kaupmaður myndi einnig velja þær vörur sem menn fengju að hafa heim með sér úr búðinni. Til að hafa kerfið „réttlátt“ fengju allir sömu matarkörfuna með sér heim. Eina ríkismatarkröfu. Þeir sem ekki kærðu sig um þessi viðskipti og neituðu að greiða fyrir þau væru settir til hliðar fyrir skattsvik.

Ánægja með stjórnmálamenn er lítil en ánægja með starfsemi á frjálsum markaði mikil. Enda þurfa stjórnmálamenn að rukka fyrir þjónustu sína með valdi en út á frjálsum markaði greiða menn fyrir þjónustu af fúsum og frjálsum vilja. Almennt mætti því færa fleiri verkefni af vettvangi stjórnmálanna og út á markaðinn. Þannig flytja menn völdin ekki aðeins til ákveðins hverfis, kynslóðar eða áhugamannahóps heldur beint til einstaklinganna sjálfra.