Miðvikudagur 12. desember 2001

346. tbl. 5. árg.

Í fréttum í fyrrakvöld kom fram að Alþýðusamband Íslands vinnur nú að því að fá ríkisstjórnina til að falla frá eða draga úr væntanlegri hækkun tryggingargjalds en skatturinn sá á að hækka um 15% eftir ár. Það hljóta að vera fróðleg samtöl sem þeir eiga um málið fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins og forseti ASÍ. Ætli ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins átti sig ekki á því að það er eitthvað einkennilegt á ferð þegar vinstrisinnaðir fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar eru mættir til að biðja um vægð fyrir hönd skattgreiðenda?

Suma hluti er hægt að segja svo oft að menn fari að trúa þeim. Aðra hluti hætta menn að heyra þegar þeir hljóma í síbylju. Í haust lögðu nokkrir velmeinandi samfylkingarmenn úr öllum flokkum fram frumvarp um að skylda áfengisframleiðendur til að setja aðvaranir á vínflöskur. Lagafrumvarpið er svohljóðandi: „Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins skal, að höfðu samráði við landlæknisembættið og Umferðarráð, sjá til þess að allar umbúðir undir áfengi, sem selt er í útsölum hennar, séu merktar á áberandi stað með viðvörun þar sem fram kemur að áfengisneysla barnshafandi kvenna geti valdið fósturskaða og að neysla áfengis og akstur ökutækja fari ekki saman. Texti viðvörunarinnar skal vera á íslensku og vera vel læsilegur.“ Vef-Þjóðviljinn hefur oft bent á kostnaðinn sem svona tillögur hafa í för með sér nái þær fram að ganga. Innflytjendur áfengis munu í þessu tilviki þurfa að taka upp hverja flösku og merkja hana með vel læsilegu viðvöruninni á íslensku. Það blastir við að hætt verður að flytja sumar tegundir inn ef aukakostnaður af þessu tagi leggst á. Innlendir framleiðendur munu einnig þurfa að breyta sínum merkingum. En látum kostnaðinn liggja á milli hluta að þessu sinni og hugum frekar að hinum mikla ávinningi sem frumvarpið hlýtur að fela í sér og gerir allar vangaveltur um kostnað hjóm eitt.

Með frumvarpinu fylgir ítarleg greinargerð um ýmsar hörmungar sem áfengisneysla getur haft í för með sér. Það er ljótur lestur svo ekki sé meira sagt. Nú er hins vegar ekki vitað til þess að nokkrum manni sé ókunnugt um skaðsemi áfengis fyrir fóstur og alvarleika þess að aka undir áhrifum áfengis. Þetta vita einfaldlega flestir – ef ekki allir. Ef einhverjum er ókunnugt um þessa skuggahlið áfengisneyslu kann að vera að sá hinn sami hafi ekki lesið annað um ævina en af miðum á brennivínsflöskum þar sem segir einmitt fátt um skaðsemi áfengis. Því blasir jú við, að mati hinna fræknu flutningsmanna frumvarpsins, að prenta þessar upplýsingar á bokkuna. En er ekki jafn líklegt – eða öllu heldur jafn ólíklegt – að til séu menn sem ekki hafa lesið annað um ævina en af límmiðum landlæknis á sígarettupökkum þar sem segir heldur ekkert um skaðsemi áfengis? Þeir vita þá heldur ekkert um mögulega skaðsemi áfengis og gætu farið sér að voða ef þeir kæmust í það. En eins og flutningsmennirnir benda hróðugir á munu menn sjá þessi skilaboð á flöskunum þegar þeir ætla að dreypa á. Nema einhverjir asnar drekki áfengi úr glasi.