Föstudagur 30. nóvember 2001

334. tbl. 5. árg.

Það heyrist margt sérkennilegt í stjórnmálaumræðunni. Á dögunum var greint frá því að stjórnvöld voguðu sér að hugleiða að fresta um sinn að lengja mögulegt fæðingarorlof nýbakaðs föður úr fjórum mánuðum í fimm. Slík hugmynd, þó smávægileg sé að öllu leyti nema hún sé mæld í opinberum útgjöldum, hefur valdið gríðarlegum taugatitringi hjá ákveðinni kredduklíku sem undanfarin misseri hefur vart um annað hugsað en það, hvernig sveigja megi fæðingarorlofsreglur að kennisetningum sínum. Hefur þessi hópur nú komið fram með kenningu sem er líklegasta óvæntasta kenning ársins og talar nú um það fullum fetum að slík frestun myndi – haldið ykkur nú fast – stangast á við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Nú má auðvitað vera, að hér hafi hópurinn fyrir misgáning tekið feil á stjórnarskrá lýðveldisins annars vegar og manifestói karlanefndar jafnréttisráðs hins vegar, en eflaust yrðu allar breytingar á fæðingarorlofslögunum bannaðar ef Ingólfur V. Gíslason, Ólafur Þ. Stephensen og Geir Haarde fengju einir að stjórna landinu. Ef einungis er um þessháttar misskilning að ræða þá er auðvitað óþarfi að gera mikið veður út af þessum nýjustu stjórnarskrárkenningum, en ef menn eru í alvöru að halda því fram að alþingi megi ekki breyta sínum eigin lögum, ja þá er ástæða til að ræða við þá menn sem á annað borð eru viðræðuhæfir.

Því er nú haldið fram, að með því að í lög hafi verið sett, að á tilteknu en ókomnu ári muni ákveðnar reglur breytast, að þá megi aldrei hrófla við þeim reglum. Að einhverjir menn kunni að hafa gert eða ekki gert einhverjar ráðstafanir vegna þess að þeir hafi talið að þessar reglur yrðu í gildi og þeir „eigi“ því reglurnar og breyting á þeim yrði skerðing á stjórnarskrárvörðum eignarrétti þeirra! Sjá menn virkilega ekki hvílík endaleysa þetta er? Má löggjafinn kannski aldrei skerða veittan rétt með almennum hætti? Mætti aldrei breyta reglum sem nokkur hagnast á? Má kannski aldrei breyta fæðingarorlofslögunum á nokkurn hátt, það að segja á nokkurn annan hátt en til að auka ríkisútgjöld? Hvað með til dæmis sjómannaafsláttinn, það má þá aldrei afnema hann. Ef að menn, sem ekki eru orðnir feður, eiga rétt til fæðingarorlofs sem aldrei hefur verið tekið, ja hvað má þá segja um rétt sjómanna til afsláttar sem er þó í gildi og hefur verið veittur árum saman. Það væri auðvitað hreint stjórnarskrárbrot að afnema sjómannaafsláttinn og furðulegt að í margra ára hatrömmum deilum um hann skuli engum hafa dottið þessi snilldarröksemd í hug.

Nei, það verður ekki mikið skorið niður á næstunni ef þeir fæðingarorlofstrúarmenn verða ofaná núna. Og það verða víst ekki miklar lagabreytingar heldur. Sérleyfi verða ekki afturkölluð, styrkjum verður ekki fækkað, kvótar verða ekki innkallaðir, höft verða ekki afnumin og þannig má lengi telja. Ekki nóg með það, heldur verður þróunin í hina áttina einnig hægari. Ef alþingi má ekki breyta þeim lögum sem það hefur sett, ef þingmenn sem sitja hverju sinni mega ekki breyta því sem forverar þeirra hafa gert, svo sem vegna breyttra aðstæðna eða breyttra viðhorfa, ja þá munu menn nú líklega fara sér töluvert hægar við að leiða nýmæli í lög. Og það væri líklega það eina góða sem hlytist af þessu nýjasta rugli í stjórnmálaumræðunni.