Fimmtudagur 29. nóvember 2001

333. tbl. 5. árg.

Á baksíðu DV í fyrradag skrifaði einhver BG frétt um sparnaðarhugmyndir ríkisstjórnarinnar. Fréttin bar fyrirsögnina „Höggvið í fæðingarorlof – en tölvum hlíft. Efasemdir hjá stjórnarliðum.“ Ekki er þó vitað til þess að höggva eigi í fæðingarorlofið heldur þvert á móti á að hafa það óbreytt frá því sem nú er. Þetta kallar BG hins vegar að „höggva“. Og til að gera hlut ríkisstjórnarinnar og þeirra sem vilja stöðva útgjaldaaukningu ríkisins enn verri er hnýtt við að ekki eigi að spara í tölvukerfi ríkisins á sama tíma og „höggvið“ er í fæðingarorlofið. BG þessi skrifaði ekki fréttir með stríðsfyrirsögnum þegar fæðingarorlofið var lengt á alla kanta um síðustu áramót og útgjöld ríkisins þar með aukin verulega. Þá hefði þó verið full ástæða til að slá því upp með stríðsletri að með nýju fæðingarorlofslögunum væru skattgreiðendur höggnir í spað.

Eins og Vefþjóðviljinn þreytist ekki á að benda á hafa fæðingarorlofslögin að óbreyttu í för með sem meiri varanlega aukningu ríkisútgjalda að dæmi eru um á síðustu áratugum. Þessar nýju bætur eru tengdar við laun þannig að hinir tekjuhæstu fá mest. Þær hugmyndir hafa verið viðraðar hér og víðar að nauðsynlegt sé að setja þak á bæturnar. Til dæmis mætti miða þær við atvinnuleysisbætur sem eru um 70 þúsund krónur á mánuði þótt flestum þyki það meira böl að missa vinnuna en eignast barn. Atvinnuleysisbætur ættu þvi með réttu að vera hærri en bætur fyrir að eignast barn. En látum það liggja á milli hluta í bili. Þessum hugmyndum hefur verið andmælt á þeim forsendum að 70 þúsund krónur dugi ekki til að foreldrar séu heima hjá börnum sínum. Vefþjóðviljinn spyr hins vegar að einu: Ef að greiða þarf einhverjum foreldrum meira en 70 þúsund krónur á mánuði til að vera heima hjá börnum sínum er þá ekki bara best fyrir börnin að svoleiðis foreldrar séu ekki heima hjá þeim?

Vefþjóðviljinn gat þess raunar á mánudaginn að samkvæmt kjarasamningi Eflingar, sem er svo góður að ekki þykir annað forsvaranlegt en að allir á félagssvæði félagsins eru skikkaðir í félagið, eru laun fiskverkamanns 84.450 krónur á mánuði eftir sjö ára starf á sama stað. Þegar þessi fiskverkamaður fer í fæðingarorlof fær hann eins og aðrir 80% af launum sínum samkvæmt nýju lögunum. Hann fær því 67.560 krónur á mánuði í fæðingarorlofinu. Ef þingmenn telja að hinir lægst launuðu geti farið í fæðingarorlof á tæpum 70 þúsund krónum hvers vegna ekki allir hinir líka sem hafa úr meiru að spila?