Laugardagur 1. desember 2001

335. tbl. 5. árg.

Menn þurfa ekki að hafa lesið hinar þekktu sögur Georges Orwells, Dýrabæ og 1984, til að hafa tekið eftir því að þeir sem hæst tala um jafnrétti, lýðræði og félagslegan jöfnuð, eru ekki endilega þeir jafnréttis- lýðræðis- og félagsjafnaðarsinnar sem þeir vilja vera að láta. Þrátt fyrir að sumir eigi næstum óendanlegan orðaforða þegar kemur að hjartnæmu tali um félagslegan jöfnuð, þá er það nú oft svo, að þegar til á að taka þá sjá sömu menn ekkert óeðlilegt við það að sumir verði jafnari en aðrir.

Eins og menn vita þá eru núgildandi og sílofuð lög um fæðingarorlof ekki aðeins eitthvert allra stærsta útgjaldamál síðustu áratuga. Þessi lög hafa einnig þann fremur ógeðfellda eiginleika að í þeim felst gríðarleg mismunun milli barna eftir fjölskylduaðstæðum þeirra og þá verður því ekki á móti mælt að þau gera ráð fyrir háum fjárframlögum til hálaunamanna en lágum bótum til lágtekjufólks. Þetta sjá auðvitað flestir sæmilegir menn þrátt fyrir að stuðningsmenn laganna reyni sem best að þegja um þessar staðreyndir og fela þær í hástemmdu orðskrúði um að „allir“ séu hæstánægðir með lögin og þau séu því fullkomin.

Yfirleitt reyna þessir menn sem sagt að þegja um hvernig lögin snúa að jafnræði og félagslegum jöfnuði. En nú er þeim svo mikið niðri fyrir í viðleitni sinni við það annars vegar að koma í veg fyrir að lögunum verði á nokkurn hátt breytt og hins vegar að reyna að koma höggi á þá sem kunna að vilja breyta lögunum, að sumir þeirra eru hættir að gæta sín. Þannig kom til dæmis hinn einstaklega málefnalegi Steingrímur J. Sigfússon í DV á fimmtudaginn og fullyrti að fæðingarorlofslögin – lögin sem gera mun verr við börn einstæðra foreldra en börn annarra, lögin sem færa hálaunafólki háar greiðslur en færa láglaunafólki lítið sem ekkert – að þessi lög væru beinlínis „heillaspor í félags- og jafnréttislegu tilliti, enda [hafi þeim almennt] verið fagnað“!

Og hvernig ætli stuðningsmenn Steingríms J. Sigfússonar bregðist nú við? Ætli þeir fari að efast um dómgreind „hins málefnalega leiðtoga“? Ætli þeir andmæli því að það sé jafnréttislegt heillaspor að börn einstæðra foreldra fái lakari kosti en önnur börn? Ætli þeir andmæli því að það sé félagslegt heillaspor að hátekjufólk fái háar greiðslur en lágtekjufólk litlar sem engar? Ætli þeir segi eitthvað yfirleitt?

Nei ætli það nokkuð. Ætli þeir muni nokkuð efast um þetta frekar en annað sem kemur frá „hinum málefnalega leiðtoga“? Ætli þeir muni ekki bara lifa sælir við sína trú enn um hríð? Og því skyldu þeir ekki gera það, því þegar allt kemur til alls þá er þetta alveg rétt hjá Steingrími J. Sigfússyni. Stríð er friður, frelsi er ánauð, fáfræði er máttur. Félagi Napóleon hefur alltaf rétt fyrir sér.