Föstudagur 23. nóvember 2001

327. tbl. 5. árg.

Nú hefur hinum merka málstað „kaupum ekkert“ skolað hér á land. Samkvæmt fréttum hefur ónefndur hópur fólks hefur tekið að sér að minnast hans með hátíðarhöldum á morgun en víðar um heiminn er haldið sérstaklega upp á hann. Í stuttu máli er snýst þessi málstaður um að andmæla svonefndri neysluhyggju, gerviþörfum og misskiptingu neyslu milli heimshluta. Aðstandendur dagsins eru sérstaklega andsnúnir „þvingaðri neyslu“.

Nú er ekki gott að gera sér grein fyrir hvaða þarfir manna eru „gerviþarfir“. Þarfir eru nefnilega einstaklingsbundnar svo hver verður eiginlega að meta það fyrir sig. Þó eru ákvarðanir um töluverðan hluta eyðslunnar í þjóðfélaginu ekki teknar af hverjum fyrir sig heldur af einhverjum allt öðrum. Þessi hluti er um 43% hér á landi. Það er auðvitað ekki gott að einhverjir menn út í bæ taki ákvarðanir um neyslu óviðkomandi. Það er auðvitað töluverð hætta á að þessir menn átti sig hreinlega ekki á því hverjar hinar raunverulegu þarfir manna eru, búi til alls kyns gerviþarfir og þvingi fram óþarfa neyslu.

Það hlýtur að teljast áhyggjuefni að svo stór hluti neyslunnar sé í raun þvinguð neysla. Þeir sem þvinga þessa neyslu fram eru 63 þingmenn og óteljandi sveitarstjórnamenn sem hirða 43% af landsframleiðslunni með skattlagningu og nota féð til að þvinga fram neyslu fyrir aðra. Til dæmis um gerviþarfirnar og neysluæðið sem þetta fyrirkomulag hefur í för með sér má nefna sendiráð í Japan og víðar, rekstur á útvarpsstöð á vegum ríkisins, nýtt tónlistarhús í Reykjavík þótt fyrir séu margir tónleikasalir, fæðingarorlof foreldra þar sem þeir best launuðu fá hæstu styrkina, upphitaða sólarströnd við heimskautsbaug í Nauthólsvík, Línu.net, vaxtabótakerfi sem verðlaunar óhóflega eyðslu og skuldasöfnun og Byggðastofnun.

Vef-Þjóðviljinn hefur því góðan skilning á þessu átaki gegn gerviþörfum og þvingaðri neyslu. Hann á hins vegar bágt með að skilja andúð aðstandenda „kaupum ekkert“ á því að sumir hafi meiri að eta í heiminum en aðrir. Þótt við ætum minna hér á Vesturlöndum kæmi ekki meira í hlut annarra. Þvert á móti. Vesturlandabúar eta ekki meira en aðrir vegna þess að þeir eti frá öðrum heldur vegna þess að það er auðveldara að elda ofan í sig í frjálsu markaðshagkerfi en í miðstýrðum áætlanabúskap. Það er eitt helsta vandamál fátækra ríkja að þau eiga lítil viðskipti við önnur lönd og njóta ekki alþjóðlegrar samkeppni og verkaskiptingar sem hefur fyllt ísskápa Vesturlandabúa af kræsingum.Ýmsar fátækar þjóðir ganga einmitt hraðar á gæði jarðar en ríkustu þjóðir Vesturlanda vegna þess að þær njóta ekki þessa hagræðis. Við þurfum að kaupa meira af þessum þjóðum og þær af okkur.