Fimmtudagur 22. nóvember 2001

326. tbl. 5. árg.

Hænsn bíða ákvörðunar Samkeppnisstofnunar um örlög sín
Hænsn bíða ákvörðunar Samkeppnisstofnunar um örlög sín

Á Hellu er gamalt hús með tuttugu ára gömlum búnaði til slátrunar á kjúklingi. Nokkrar skemmdir urðu á þessu húsnæði í jarðskjálftum á síðasta ári. Erfiðlega hefur gengið að manna sláturhúsið og eigendur þess telja það of lítið til starfsemi af þessu tagi. Þessar ástæður hafa leitt til þess að hreinlæti hefur ekki verið viðunandi í sláturhúsinu og því hefur verið lokað tímabundið af heilbrigðisástæðum. Eigendur sláturhússins telja fyrirtæki sitt ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að reisa nýtt sláturhús. Þeir náðu hins vegar samningum við annað sláturhús um að taka slátrunina að sér. Þeir ákváðu því að loka litla, skemmda og gamla húsinu með úrelta tækjakostinum og hætta að slátra í því. Þetta virtist öllum í hag, ekki síst þeim sem vilja síður fá í magann. En ekki alveg öllum þó. Einn aðili varð alveg ga-ga.

Hér starfar nefnilega Samkeppnisstofnun á vegum hins opinbera sem vildi hafa sitt að segja um málið. Á Samkeppnisstofnun starfa í raun yfirforstjórar íslenskra fyrirtækja. Samkeppnisstofnun sér til þess að eigendur fyrirtækja geta ekki ákveðið hvað verður um eignir sínar. Á Samkeppnisstofnun eru teknar endanlegar ákvarðanir um rekstur íslenskra fyrirtækja. Það má jafnvel ekki leggja niður lélegt sláturhús fyrir firðufénað án blessunar yfirforstjóranna á stofnuninni. Samkeppnisstofnun skipaði því svo fyrir að haldið skyldi áfram að slátra í litla, skemmda og gamla húsinu með úrelta tækjakostinum, fáum starfsmönnum og óviðunandi hreinlæti.

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisnefndar Reykjavíkur nýlega vakti Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi athygli á þessu sérstæða máli. Nefndin samþykkti í kjölfarið svohljóðandi ályktun: „Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur lýsir furðu sinni á því að Samkeppnisstofnun úrskurði að slátrað skuli í húsi, sem að hefur verið lokað af heilbrigðisástæðum. Mikill árangur hefur náðst í baráttunni við sýkingu í kjöti á markaði. Lokun sláturhússins á Hellu er liður í að tryggja þann árangur, sem náðst hefur, enn frekar. Það að samkeppnisyfirvöld fari fram á að slátrun hefjist aftur í húsinu er vægast sagt sérkennileg ráðstöfun.“

Þessi ályktun er að flestu leyti skynsamleg – og vitaskuld mun betri en flestar ályktanir opinberra nefnda. Þó finnst nú eflaust einhverjum að þessi ákvörðun Samkeppnisstofnunar hefði ekki þurft að koma nokkrum manni á óvart. Það er nefnilega ekkert leyndarmál að á Samkeppnisstofnun fara menn offari hvenær sem þeir geta og þeim er algerlega sama um afleiðingarnar, ef þeim aðeins tekst að knýja einhverja kredduna sína fram. Samkeppnisstofnun hikar ekki við að níðast á fyrirtækjum sem eru að berjast fyrir tilveru sinni, hún lætur sér í léttu rúmi liggja hvort fyrirtæki starfa með hagkvæmum eða óhagkvæmum hætti og henni er algerlega sama þó neytendur borði skemmdan mat – bara ef tekst að koma í veg fyrir samstarf manna og sameiningu fyrirtækja.