Miðvikudagur 21. nóvember 2001

325. tbl. 5. árg.

Í haust ritaði framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Sigurganga þriðju leiðarinnar“ þar sem hann lýsti því með miklum gífuryrðum hvernig jafnaðarmenn væru að leggja heimsbyggðina undir sig og hlypu sigurhringinn eftir þriðju leiðinni svonefndu. Því miður láðist framkvæmdastjóranum að segja almenningi í Noregi og Danmörku frá þessum miklu tíðindum. Strax sama dag og grein framkvæmdastjórans birtist töpuðu jafnaðarmenn kosningum í Noregi og í gær voru félagar þeirra í Danmörku einnig sendir í þriðju deild þarlendra stjórnmála. Þessi grein fær nú hiklaust þá einkunn sem formaður Samfylkingarinnar gaf blaðrinu í 150 flokksmönnum sínum á landsþinginu nú um helgina og er réttnefnd „bullandi umræða“.

Jóhanna Sigurðardóttir er ekki af baki dottin með hið opna bókhald stjórnmálaflokka þótt henni hafi ekki orðið ágengt með það mál á landsfundi Samfylkingarinnar. Það gátu hlustendur rokkstöðvar ríkisins heyrt í gær. Þar boðaði Jóhanna enn eitt frumvarpið um fjármál stjórnmálaflokkanna. Enda varð henni ekki ágengt með þetta mál á landsfundi hinna 150 samfylkingarmanna um helgina og því rétt metið hjá henni að líklega séu hinir flokkarnir á þingi ekki ólíklegri en Samfylkingin til að birta bókhaldið. Eina leiðin til að Samfylkingin sýni bókhald sitt er að skylda hana til þess með lögum. Eini liður hins „opna“ bókhalds Samfylkingarinnar sem opinberaðist á landsfundinum voru skuldir upp á 66 milljónir króna. Hverjum skuldar Samfylkingin 66 milljónir? Auðvitað var ekki sagt frá því á landsfundi hins opna bókhalds. Ekki kom heldur fram hvort skuldahaldi Alþýðubandalagsins er með í þessari tölu.

Jóhanna Sigurðardóttir vill setja í lög að þeir sem styrkja stjórnmálastarfsemi um 300 þúsund krónur eða meira verði hafðir sérstaklega til sýnis á almannafæri. En hvað með þá sem lána stjórnmálaflokki 66 milljónir króna? Hvort er nú líklegra að maður sem veifar 300 þúsund kalli eða sá sem sér um að innheimta 66 milljóna skuld hafi tök á flokksnefnu eins og Samfylkingunni? Önnur upphæðin er 220-föld hin. Hærri upphæðin er reyndar algert einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu. Ef henni væri skipt niður á hina 150 fundarmenn á landsfundi Samfylkingarinnar kæmi 440 þúsund króna skuld í hlut hvers. Ef almenningur væri ekki neyddur til að styðja stjórnmálaflokkana á þingi með framlögum úr ríkissjóði er ljóst að Samfylkingin væri ekki aðeins málefnalega gjaldþrota.