Þriðjudagur 20. nóvember 2001

324. tbl. 5. árg.

Í Spíral, heilaþvottarþætti ríkisins, sem sýndur er sem baranefni á sunnudögum og fimmtudögum er mikið lagt upp úr því að sannfæra börnin um gagnsemi flokkunar og endurvinnslu á pappír. Við þennan þvott þeirra spíralsmanna er hvorki notuð sápa né vatn heldur stór skammtur af rangfærslum og ósvífni. Takmarkið er að börnin verði „litlar löggur“ á heimilum og hafi gætur á hinum fullorðnu. Allt er þetta gert í nafni umhverfisverndar, ekki síst til að vernda skógana. Ef við flokkum ekki pappír frá öðru rusli og komum honum á ekki á sérstaka gámastöð spáir Spírall því að „Íslendingar yrðu ekki nema sex daga að skeina sig á öllum trjánum á Miklatúni.“

Áður hefur verið minnst á það hér að pappírsframleiðendur eru með mestu skógarræktendum. Endurvinnsla á pappír getur því dregið úr skógrækt. Endurvinnslan sjálf er einnig orkufrekur iðnaður sem krefst mikillar efnanotkunar en á það er aldrei minnst í Spíral. En það er fleira við þetta endurvinnslutrúboð úr Spíral að athuga. Á heimasíðu Sorpu má lesa að dagblöð, tímarit, skrifstofupappír, bylgjupappi og fernur sem safnast hér á landi eru send til annarra landa til endurvinnslu. Í fyrri þáttum Spírals hefur hins vegar verið gerð hörð hríð að hvers kyns flutningi milli landa á þeirri forsendu að hann sé skaðlegur umhverfinu. Bananar og aðrir ávextir þykja sér í lagi skaðlegir því þeir koma svo langt að. Ef menn fá sér ávöxt frá öðrum löndum eru menn að eta „marga kílómetra af mat“ og það er andstætt umhverfinu, að mati Spírals. En það er í góðu lagi að rúnta með gömul dagblöð um allar jarðir. Í Spíral hefur einnig verið amast við því að menn noti bíla sína á þeirri forsendu að það sé vont fyrir umhverfið. Engu að síður eiga fjölskyldur landsins að safna saman pappír, væntanlega undir stjórn litlu löggunnar á heimilinu, og aka honum á gámastöðvar. Ætli fjölskyldubílar mengi minna ef þeir eru fylltir af dagblöðum og ekið á gámastöðvar? Og hvernig er það, þarf enga orku til að byggja gámastöðvarnar? Eða reka þær? Þarf enga orku á alla gámabílana sem rúnta með flokkað sorpið? Orkunotkun er eitt af verkum húsbóndans í neðra, ef marka má innrætinguna í Spíral. Orkusóun í nafni umhverfisverndar er hins vegar af hinu góða.

Í hverjum einasta þætti Spírals er klifað á því að „ekkert eyðist“ sem sett er út í náttúruna. Það „dreifist bara“ er bætt við. Tökum dæmi af handahófi. Gefum okkur að íbúar höfuðborgarsvæðisins hætti að eyða tíma sínum í að flokka pappa frá öðru rusli, spari sér nokkra bílrúnta út á gámastöðvar og hendi pappanum einfaldlega með öðru sorpi. Ætli hann myndi „ekki eyðast“ heldur „bara dreifast“ á haugunum upp á Álfsnesi? Hvort ætli felist meiri dreifing í því að urða hann þar með öðrum sorpi eða dreifa honum á fjölskyldubílnum á gámastöðvar og dreifa svo með skipi til annarra landa þar sem honum er aftur dreift á endurvinnslustöðvar?