Mánudagur 19. nóvember 2001

323. tbl. 5. árg.

Jæja, það er líklega rétt að sýna Samfylkingunni sanngirni. Og Össuri líka. Vefþjóðviljinn hefur undanfarið látið að því liggja að stöðumat Össurar Skarphéðinssonar og raunsæi sé ekki upp á marga fiska. En kannski hefur Össuri þar verið gert rangt til, því mitt í öllu ruglinu á hann það til að meta hlutina rétt. Í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi var hann til dæmis spurður um hvað stæði uppúr nýafstöðnu flokksþingi Samfylkingarinnar, og svar hans var einlægt og satt: „Hér hafa auðvitað farið fram bullandi umræður!“

Og hvernig gat annað verið? Fundurinn hófst á langri ræðu mesta vindhana íslenskra stjórnmála og svo rak hver spekingurinn annan: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Lúðvík Bergvin Bergvinsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Mörður Hörður Árnason og svo mætti lengi telja. Hvernig hefðu þessar umræður getað orðið nokkuð skárra en „bullandi“? Það er því kannski ekki að undra að fæstir fundarmanna hafi haldið lengi út á fundinum. Ef marka má ítrekaðar óumbeðnar yfirlýsingar Össurar Skarphéðinssonar þá voru 800-900 manns viðstaddir setningu landsfundarins og í ljósi þekktrar nákvæmni Össurar er auðvitað engin ástæða til að efast um það. En þess vegna hljóta það að vera ákveðin vonbrigði fyrir hnarreista Samfylkingarmenn að einungis 150 manns hafi tekið þátt í kosningum forystusveitarinnar í gær. Fimm af hverjum sex sem mættu á setninguna hefur semsagt ekki litist betur á en svo að þeir komu ekki meir.

Kosningarnar í gær urðu svo auðvitað enn einn vitnisburðurinn um vinstra lýðræði í praxis. Samfylkingin hefur nefnilega sett sérstakar reglur um „kynjakvóta“ sem valda því að það eru ekki almennir kjósendur sem ráða því hverjir eru kosnir. Þannig komst kvenmaður að nafni Hólmfríður Garðarsdóttir í framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar en þrír karlmenn, sem fleiri flokksmenn kusu, komust ekki að. Hólmfríður þessi er þar með einn af fáum Íslendingum sem í raun byggir velgengni sína á gjafakvóta og er vel við hæfi að Samfylkingin sé sá stjórnmálaflokkur landsins sem sérhæfi sig í slíkum framgangi flokksmanna. Formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, Stefán Jóhann Stefánsson, sem varð fjórum sætum fyrir ofan Hólmfríði, varð þannig að víkja fyrir kvótaþeganum og er með ólíkindum hversu lengi íslenskum krötum tekst að sparka í menn með þessu nafni.

Svo furðulegt sem það er þá virðist ekkert hafa heppnast á flokksþingi Samfylkingarinanr. En Össur Skarphéðinsson og félagar reyna samt að láta eins og allt hafi farið að áætlun. Fyrir utan stóra nafnabreytingarmálið þá áttu Evrópumálin að verða í algleymi en niðurstaðan varð sú að flokksþingið gat enga ákvörðun tekið um þau en vísaði þeim til frekari umræðu og póstkosningar seinna. Þrátt fyrir níu – níu! – tillögur að nýju nafni á flokkinn þá tókst ekki að afgreiða eina einustu og var tillögunum vísað til Stefáns Jóns Hafstein til ákvörðunar og mun hann senda niðurstöðu sína í pósti einhvern tímann seinna. „Opið bókhald“ átti að vera annað númer á flokksþinginu og var það afgreitt með þeim hætti að Össur Skarphéðinsson sagði – við lófatak fundarmanna – að hann hefði lagt til að það yrði opnað… seinna. Og meira að segja samsöngurinn í lokin, hann fór þannig að sumir sungu Internationalinn en aðrir Maístjörnuna. Samfylkingarmenn – en eins og menn muna þá var stofnun flokksins „mestu tíðindi í íslenskri stjórnmálasögu – gátu ekki einu sinni sungið sama lagið í lokin.

Svo allrar sanngirni sé gætt, þá segja sumir Samfylkingarmenn að reyndar hafi hátíðarkvöldverðurinn og partíið á laugardaginn gengið vel. Já, og því gæti það ekki verið? Með þennan flokk, þessi málefni, þessa forystu og þetta flokksþing, hvað eiga menn að gera annað en bara detta í það og gleyma þessu?