Laugardagur 24. nóvember 2001

328. tbl. 5. árg.

Í viðtali við DV í gær sagði Pétur H. Blöndal þingmaður að það eina sem orkaði tvímælis í stefnu stjórnvalda síðastliðin misseri sé hve velferðarkerfið hafi þanist út. „Það mætti kannski gagnrýna að samneyslan hefur vaxið meira en einkaneyslan en mér heyrist nú að vinstrimenn séu sífellt að krefjast meiri útgjalda fyrir velferðarkerfið“, var haft eftir Pétri. Hann bætti því svo við að lausnin á þessu væri að fækka ríkisstarfsmönnum.
Það er auðvitað rétt sem Pétur segir að útgjaldaaukning ríkissjóðs á síðustu misserum er ævintýraleg og þótt aukningin sé mikil vilja vinstriflokkarnir bæta í. Slíka aukna eyðslu kalla þeir Steingrímur J. Sigfússon og Össur Skarphéðinsson að „standa vörð um velferðarkerfið“.

En það kemur á óvart að Pétur H. Blöndal skuli velja útþenslu velferðarkerfisins í gagnrýni sína. Í fyrravor átti Pétur þess kost að greiða atkvæði gegn mestu útgjaldaaukningu velferðarkerfisins í Íslandssögunni. Hann greiddi hins vegar atkvæði með frumvarpi um foreldra- og fæðingarorlof og sagðist í umræðum um frumvarpið „fagna“ því og vera „mjög ánægður með hvað það er vel unnið“.
Með samþykkt Péturs og flestra annarra þingmanna á frumvarpinu var ekki aðeins verið að þenja velferðarkerfið út sem aldrei fyrr heldur í raun að fjölga ríkisstarfsmönnum um rúmlega 1.000. Með lögunum verða allir foreldrar nefnilega á launum hjá ríkinu í 3 – 6 mánuði. Og ekki bara á einhverjum 60 þúsund krónum á eins og flestir sem njóta aðstoðar velferðarkerfisins vegna veikinda, fötlunar eða atvinnumissis. Nei þessir nýju bótaþegar sem flestir eru á besta aldri og við hestaheilsu fá 80% af þeim launum sem þeir hafa haft fram að þeim tíma sem þeir gerast bóta- eða launaáskrifendur velferðarkerfisins. Menn með 1 milljón króna á mánuði fá því 800 þúsund krónur á mánuði þegar þeir gerast launaþegar hjá velferðarkerfinu.

Það mætti kannski gagnrýna. Kannski. Í stað þess að fagna og vera mjög ánægður.