Laugardagur 20. október 2001

293. tbl. 5. árg.

Steingrímur J. Sigfússon var í essinu sínu í umræðum á Alþingi á fimmtudag. Ekki svo að skilja að hann hafi verið skemmtilegri en venjulega, en hann naut sín greinilega vel og hafði til þess ríka ástæðu. Hann fékk ekki aðeins færi á að vera á móti afnámi tiltekins banns, heldur gat hann gefið banni á fleiri sviðum undir fótinn og þótt sýnilega ekki verra. Til umræðu var – enn og aftur – frumvarp um að heimila hnefaleika áhugamanna. Gunnar I. Birgisson flutti – í þriðja sinn á þessu kjörtímabili – framsögu um þetta mál og tókst ágætlega upp að þessu sinni. Gera má ráð fyrir að fjórða framsaga hans á næsta vorþingi verði svo að segja hnökralaus. En hvað um það, hann taldi að málið snerist um hvort menn vildu sífellt vera horfa yfir öxlina á náunganum og hafa vit fyrir honum, eða hvort frelsi ætti að ríkja væri þess kostur.

Steingrímur Joð leit málið öðrum augum. Hann taldi þau rök Gunnars fráleit, að fyrst margs konar spark- og kýlingaríþróttir væru leyfðar, hlytu menn að leyfa hnefaleika áhugamanna. „Ætli það verði þá ekki ansi margt leyft,“ sagði Steingrímur og sýndist hann þar með hafa slegið öll vopn úr höndum stuðningsmanna hnefaleikanna, því hverjum dettur í hug að hægt sé að líða það að „ansi margt“ sé leyft. „Ansi margt“, nei, það getur aldrei gengið.

Fyrir áhugamenn um hnefaleika hafði Steingrímur svo ráð undir rifi hverju. Þeir þyrftu sko ekkert að stunda hnefaleika, „enda er nóg af öðrum íþróttum að stunda“. Hvað er hægt að segja við svona rökum? Fyrst hægt er að stunda íshokkí þarf varla nokkur maður að stunda hnefaleika. Og hvern langar svo sem í kýlingarnar ef hann getur bara farið í körfubolta í staðinn? Í veröld Steingríms er útilokað að nokkur geti haft nokkuð við það að gera að stunda íþrótt sem Steingrímur hefur ekki áhuga á. Og sá möguleiki að það geti verið réttur einhvers manns að þurfa ekki að þola forsjá Steingríms í þessu efni eða öðrum álíka er Steingrími vitaskuld alveg óskiljanlegt. Enginn gæti mögulega viljað vera án leiðsagnar stórmennisins Steingríms J. Sigfússonar.