Helgarsprokið 21. október 2001

294. tbl. 5. árg.

Nú hefur verið greint frá nýjum niðurstöðum könnunar á áfengis-, vímuefna- og tóbaksneyslu meðal íslenskra framhaldsskólanema. Meðal þess sem kemur í ljós er að verulega hefur dregið úr áfengisneyslu meðal ungmenna á framhaldsskólaaldri frá því sambærileg könnun var gerð 1992 en neysla ólöglegra vímuefna hefur aukist. Þá hefur dregið úr reykingum en neysla munn- og neftóbaks hefur aukist.

„Niðurstöður könnunarinnar meðal framhaldsskólanema virðast hins vegar ekki benda til þess að bönn og aðrar takmarkanir af hálfu hins opinbera séu áhrifarík leið til þess að draga úr neyslunni. Eru ekki aðrar leiðir árangursríkari?“

Þessar niðurstöður hljóta að vera umhugsunarefni fyrir þá, sem telja að ríkisvaldinu beri að berjast gegn neyslu skaðlegra efna með bönnum og öðrum lagalegum takmörkunum. Áfengi er að vísu löglegt í landinu en sala til einstaklinga undir tvítugu er þó bönnuð. Margvíslegar takmarkanir á sölu og meðferð áfengis eru jafnan rökstuddar með tilvísun til þess að nauðsynlegt sé að hefta aðgang ungmenna að því. Frá árinu 1992 hafa þær breytingar orðið helstar í áfengismálum að vínveitingastöðum hefur fjölgað, áfengisútsölum hefur fjölgað og örlítið hefur verið slakað á ríkisforsjánni í sambandi við innflutning. Afleiðing þessa hefur ekki verið stóraukin drykkja barna og ungmenna, eins og oft hefur verið haldið fram af talsmönnum banna og ríkisafskipta, heldur hefur neyslan þvert á móti minnkað! Neysla ólöglegra vímuefna hefur hins vegar aukist, jafnvel þótt efnin sem um ræðir séu alveg jafn ólögleg í dag og þau voru fyrir 9 árum. Eina sem hefur breyst í þeim efnum er aukin löggæsla og hertar refsingar við brotum á fíkniefnalöggjöfinni.

Ef horft er á tóbaksmálin þá er ljóst að löggjafinn hefur hert ýmsar reglur milli áðurnefndra kannana. Sumir gætu haldið því fram að þær takmarkanir væru nú að skila árangri með hliðsjón af því að dregið hefur úr reykingum. Sú kenning fellur hins vegar um sjálfa sig ef höfð er í huga aukingin á neyslu munn- og nefntóbaks, en árið 1996 voru einmitt gerðar breytingar á tóbaksvarnarlögum sem fela í sér bann við flestum tegundum munn- og neftóbaks. Svokallað snuff og snús var gert ólöglegt og eina reyklausa tóbakið í landinu átti að vera gamli íslenski neftóbaksruddinn og svokallað skro, sem einkum er vinsælt meðal manna sem komnir eru af léttasta skeiði. Þessum takmörkunum var einkum stefnt gegn munn- og neftóbaksneyslu meðal ungs fólks, einkum pilta. Ef taka á mark á niðurstöðum þessarar könnunar hefur þetta bann engum árangri skilað.

Enginn dregur í efa að fólk getur valdið sjálfu sér og jafnvel öðrum miklu heilsutjóni og öðrum skaða með neyslu þeirra efna sem hér hefur verið minnst á. Niðurstöður könnunarinnar meðal framhaldsskólanema virðast hins vegar ekki benda til þess að bönn og aðrar takmarkanir af hálfu hins opinbera séu áhrifarík leið til þess að draga úr neyslunni. Er ekki kominn tími til að alþingismenn og aðrir ráðamenn fari að átta sig á því að þrátt fyrir góðan ásetning þeirra og umhyggju fyrir fólkinu í landinu þá eru þeir á rangri leið þegar þeir beita boðum og bönnum í þessu sambandi? Eru ekki aðrar leiðir árangursríkari?