Föstudagur 19. október 2001

292. tbl. 5. árg.

Í fyrirsögn í netblaði Morgunblaðsins, www.mbl.is, sagði í gær: „Rekstur hraðlestar til Keflavíkurflugvallar getur staðið undir sér“. Fleiri fjölmiðlar slógu svipuðum fullyrðingum fram. Þetta eru nokkur tíðindi fyrir þá sem hafa hingað til talið af og frá að svo gæti verið, en svo kemur að smáa letrinu. Þegar smellt er á hnapp sem segir „meira“ og lesið er áfram kemur í ljós að „fargjöld nægi fyrir rekstrarkostnaði lestarinnar, án fjárfestingar- og vaxtarkostnaðar.“ Lestin getur sum sé staðið undir sér en þó ekki ef hún þarf að greiða kostnað við uppsetningu lestarinnar, sem nú er áætlað að muni kosta 24-29,5 milljarða króna, eða vexti.

Nú er líklega of langt gengið að halda því fram að fáar viðskiptahugmyndir séu svo vitlausar að þær borgi sig ekki einu sinni ef allur fjárfestingar- og vaxtarkostnaður er skilinn frá kröfum um arðsemi. Þó er að minnsta kosti leitun að hugmyndum sem komast á umræðustig og geta klárlega ekki staðið undir nauðsynlegum fjárfestingum og vöxtum af þeim. Reyndar er alls ekki hægt að tala um að rekstur borgi sig ef hann stendur aðeins undir rekstrarkostnaði frá degi til dags en ekki fjárfestingum, enda sjaldgæft að fyrirtæki, t.d. heil hraðlest, falli af himnum ofan fullgerð og „ókeypis“.Umræðan um hraðlestina til Keflavíkurflugvallar er dæmigerð fyrir það þegar stjórnmálamenn langar að tala digurbarkalega um miklar framkvæmdir og þurfa að búa til röksemdir fyrir framkvæmdinni. Þá er allt í einu frambærilegt að tala um að hitt og þetta geti borið sig ef ekki er tekið tillit til þessa kostnaðarins eða hins. Þannig gætu jarðgöng á Austfjörðum borgað sig ef litið væri framhjá fjárfestingar- og vaxtarkostnaði. Sömu sögu væri að segja um jarðgöng út í Vestmannaeyjar. Og út í Grímsey líka, ef því er að skipta.

En það þarf svo sem ekki að undra að útreikningar við þessa lest til Keflavíkurflugvallar séu skringilegir, því það eru engir venjulegir stjórnmálamenn sem pöntuðu könnunina. Þar var R-listinn á ferðinni með Alfreð Þorsteinsson stjórnarformann Orkuveitunnar og Línu.Nets í broddi fylkingar. Best heppnaða fjárfesting Alfreðs fyrir almannafé til þessa er kaup Línu.Nets á Irju fyrir 250 milljónir króna, sem Alfreð taldi sjálfur nokkrum dögum eftir kaupin að væri aðeins 50 milljóna króna virði. Og nú herma fréttir að Alfreð hyggist bæta um betur og láta Orkuveituna kaupa Irju aftur fyrir upphaflegt verð. Þau kaup munu sjálfsagt borga sig ef rekstur Irju þarf hvorki að standa undir fjárfestingar- né vaxtakostnaði, og því oftar sem Alfreð kaupir fyrirtækið á margföldu verði, þeim mun líklegra er vitaskuld að reksturinn beri sig. Um það þarf enginn að efast.

Óhætt er að segja að Sparisjóður vélstjóra er lánsamur að njóta forystu svo mikils fjármálaspekings sem Alfreð er, en hann er sem kunnugt er stjórnarformaður sjóðsins. Sparisjóðurinn þarf auðvitað ekkert að gera annað en lána þeim fyrirtækjum sem alls ekki geta staðið undir fjárfestingar- og vaxtakostnaði og þá er framtíðin björt, lánin trygg og arðsemin í toppi.