Fimmtudagur 18. október 2001

291. tbl. 5. árg.

Vef-Þjóðviljinn vill biðja kvenkyns lesendur sína afsökunar á því að hafa ekki áttað sig á því að skrif hans um kvótakerfið hafa að öllum líkindum ekki hentað konum. Að minnsta kosti er heil rannsóknarstofa við æðstu menntastofnun þjóðarinnar tilbúin að kynna rannsóknir sínar á hinu óvænta en mikilvæga rannsóknarefni; skilningsleysi kvenna þegar kvótakerfið er rætt manna á meðal. Niðurstöðurnar verða kynntar í dag í Norræna húsinu eins og eftirfarandi kynning ber með sér. 

Rannsóknastofa í kvennafræðum 

Rabb næstkomandi fimmtudag, 18. október, kl. 12.00-13.00 í Norræna húsinu.

„Ég sé kvótakerfið fyrir mér sem lopapeysu“

Kynhugmyndir og upplifun kvenna af orðræðu og auðlindastefnu í sjávarútvegi. Auðlindastjórnun í sjávarútvegi hefur haft víðtæk áhrif í íslensku samfélagi. Í rabbinu verður rætt um hvernig skoða megi áhrif kvótakerfisins á konur og hvernig þær upplifa og tjá þau áhrif. Fjallað verður um hvernig ríkjandi orðræða í tengslum við kvótakerfið hentar konum síður en körlum. Konur vísa í orðræðu sem byggir gjarnan á kynbundinni reynslu þeirra til að tjá sig um kvótakerfið en ekki í orðræðu hagfræðinga og stjórnmálamanna. Athafnir og viðhorf kvenna verða skoðuð útfrá nálgunum um sjálfsmynd (identity) og gerendahæfni (agency). Sú skoðun hefur sýnt að ákveðin ruglandi hefur átt sér stað í tengslum kvenna við kvótakerfið. Þessi ruglandi kemur meðal annars fram í sjálfsmynd fólks og athöfnum og því hvernig þessir þættir bera með sér andstöðu (resistance) við kvótakerfið samtímis því að bera með sér samsömun (compliance) við kerfið og þær hugmyndir sem því liggja að baki.