Laugardagur 6. október 2001

279. tbl. 5. árg.

„Klámsýningar skila engu jákvæðu framlagi til þjóðfélagsins, við skulum einfaldlega banna þær,“ skrifar Ástráður Haraldsson lögfræðingur og einn af síðustu frambjóðendum Alþýðubandalagsins til borgarstjórnar Reykjavíkur. Mikið óhapp er að borgarbúar skyldu ekki hafa borið gæfu til að veita Ástráði brautargengi í kosningum þegar hann loks lét til leiðast og sté niður til pöpulsins að veita honum þjónustu. En Ástráður hefur engu gleymt og nú fær almenningur enn tækifæri til að njóta leiðsagnar meistarans. Með skrifum sínum í Morgunblaðið í gær sýnir hann fram á að best er að banna nektardansstaði og allt sem þeim tengist. Hann er afar ósáttur við fálm, pot og vanmáttugan þæfing svo notuð séu hans orð þeirra sem nú halda um stjórnvölinn. Ástráði nægir engan veginn að reynt sé að þvælast fyrir nektardansstöðunum eins og gert hefur verið. Og honum nægir ekki heldur að farið verði að tillögum starfshóps borgarstjóra og lögreglustjóra sem vill banna einkadans og halda gestum nektardansstaða ævinlega fjórum metrum hið minnsta frá nektardönsurum(!). Nei, svona hálfkák er ekki til neins að mati Ástráðs, nektardansinn skilar engu „jákvæðu framlagi til þjóðfélagsins“ og þess vegna á bara að banna hann.

Svona einfalt er þetta nú. Ekki þarf annað til en Ástráður Haraldsson, fyrrum fundaskelfir Æskulýðsfylkingarinnar, sjái í hendi sér að tiltekinn verknaður „skili engu jákvæðu framlagi til þjóðfélagsins“ og þá verður verknaðurinn bannaður. Í framhaldi af því verður hér hið mesta sæluríki og allir himinlifandi. Rétt eins og í Sovét-Rússlandi þar sem sömu hugmyndir félaga Ástráðs reyndust svo vel.

En hvað ætlar Ástráður Haraldsson að gera ef meirihluti manna hættir að styðjast við þær algildu reglur um gagnsemi sem Ástráður Haraldsson setur, og fer jafnvel að styðjast við eitthvað allt annað? Hvað ef meirihlutanum líkaði allt í einu illa hversu mjög hugmyndir Ástráðs minna á hugmyndir fyrrum félaga hans fyrir austan Járntjald og meirihlutinn teldi það bara alls ekki skila neinu jákvæðu framlagi til þjóðfélagsins að Ásráður viðri slíkar hugmyndir? Hvað þætti Ástráði Haraldssyni ef meirihlutinn beitti þá hans eigin meðulum og bannaði honum að tjá sig um skoðanir sínar? Líklega þætti honum það mjög sanngjörn og eðlileg niðurstaða.