Helgarsprokið 7. október 2001

280. tbl. 5. árg.

Thomas Sowell: Fimm ára gamall
Thomas Sowell: Fimm ára gamall

Hagfræðingurinn Thomas Sowell hefur kennt við ýmsa af þekktustu háskólum Bandaríkjanna auk þess að starfa í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Hann hefur verið vinsæll penni í blöðum og tímaritum og hefur einnig sent frá sér nokkrar bækur. Nýjasta bókin hans er Basic Economics: A Citizen’s Guide to the Economy, en eins og titillinn gefur til kynna er bókinni ætlað að kenna öllum almennum borgurum ekki aðeins hagfræðinemum grundvallaratriði hagfræðinnar og hagkerfisins. Bókin er prýðilega samin og vel gagnleg til þess brúks sem henni er ætlað og líklega verður það til að gleðja margan lesandann að í bókinni eru engar jöfnur og engin línurit, og tiltölulega fáar tölur miðað við það sem gengur og gerist í hagfræðiritum.
Hér að neðan eru brot úr kaflanum um samkeppnislöggjöf:

„Gera verður skýran greinarmun á röksemdunum sem settar eru fram til stuðnings samkeppnislögum og því sem lögin gera í reynd. Helsta röksemdin til stuðnings samkeppnislögum er að þau eigi að koma í veg fyrir einokun eða aðrar aðstæður sem gera mögulegt að verði sé lyft upp fyrir það stig sem fengist á frjálsum samkeppnismarkaði. Raunin hefur verið sú að flest helstu samkeppnismálanna hafa snúist um fyrirtæki sem hafa boðið lægra verð en keppinautar þeirra. Oft hafa það einmitt verið kvartanir þessara keppinauta sem ýtt hafa við ríkinu að grípa inn í.
Rökin fyrir mörgum af málshöfðunum ríkisins á grundvelli samkeppnislaga eru þau að einhver hegðun fyrirtækis ógni samkeppni. Það mikilvægasta við samkeppni er þó að hún er ástand á markaðnum. Þetta ástand er ekki hægt að mæla með fjölda keppinauta sem fyrir hendi eru í tiltekinni atvinnugrein á tilteknum tímapunkti, þó stjórnmálamenn, lögfræðingar og ýmsir aðrir hafi haldið að hægt sé að mæla hvort samkeppni sé fyrir hendi með því að kanna hversu margir keppendur hafa lifað samkeppnina af. En samkeppni sem ástand er einmitt það sem eyðir mörgum keppinautum.
Ef öllum keppinautum væri eytt væri fyrirtækið sem eftir lifði augljóslega með einokun og gæti krafist mun hærra verðs en á samkeppnismarkaði. En þetta er afskaplega sjaldgæft. Þrátt fyrir þetta er hræðslan við einokun oft notuð til að réttlæta ríkisafskipti þar sem engin alvarleg hætta er fyrir hendi á einokun.

Skorturinn á raunverulegri einokun í bandarísku hagkerfi hefur leitt til mikillar lagalegrar sköpunargleði í því skyni að skilgreina hin ýmsu fyrirtæki sem einokunarfyrirtæki eða sem möguleg eða „verðandi“ einokunarfyrirtæki. Það má sjá hversu langt þetta gekk á því að hæstiréttur bannaði árið 1966 samruna milli tveggja skófyrirtækja sem hefðu sameinuð verið með innan við 7% markaðshlutdeild í skósölu í Bandaríkjunum. Sama ár bannaði rétturinn samruna tveggja staðbundinna verslunarkeðja, sem samanlagt seldu 7,5% af matvörum í Los Angeles og nágrenni.
Fyrir dómstólum og í skrifum um samkeppnismál tíðkast að fjalla um þá prósentutölu sem fyrirtæki hefur af heildarsölu á markaði sem markaðshlutdeild sem það „ráði yfir“. Samkvæmt þessari skilgreiningu réðu myndavélaframleiðandinn Graflex og flugfélagið Pan American yfir umtalsverðum hluta markaða sinna, en eftir því sem tíminn leið varð ljóst að þau réðu ekki yfir neinu, því þá hefðu þau ekki orðið undir og þurft að hætta starfsemi.“

Sowell nefnir fleiri dæmi um hversu öfugsnúin baráttan gegn „fákeppni“ hefur verið, og segir svo:

„Það getur tekið áratug eða meira að ljúka stóru samkeppnismáli fyrir dómstólum. Markaðir bregðast oft mun hraðar en þetta við einokun eða samráði, eins og auðhringir í byrjun tuttugustu aldar komust að þegar risastórar smásöluverslanir eins og Sears, Montgomery Ward og A & P sigruðu þá löngu áður en ríkið gat hafið málssókn gegn þeim.“

Bókina má fá í versluninni Amazon fyrir 21 dal auk sendingargjalds, en ofan á bókarverðið og sendingargjaldið leggur ríkið náðarsamlegast virðisaukaskatt sinn fyrir að hafa aukið virði bókarinnar. Ríkið mun verja afrakstrinum til skynsamlegri mála en kaupendur bókarinnar.