Föstudagur 5. október 2001

278. tbl. 5. árg.

Andstæðingar bíla og stuðningsmenn hárra skatta, en einhverra hluta vegna virðast þessir hópar oft skarast, láta yfirleitt eins og bílar kosti aðra en bíleigendur óskaplegar upphæðir. Þeir tala eins og skattar af bílum dugi ekki fyrir samgöngumannvirkjum og eigendur bílanna, séu í raun afætur á þjóðfélaginu ólíkt þeim sem fari ferða sinna með öðrum hætti. Oft hefur verið á það bent, meðal annars hér á þessum stað, hvílík öfugmæli þetta eru. Nú hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, birt útreikninga sína á tekjum og kostnaði ríkisins vegna bíla landsmanna og gefa þær ágæta mynd af því hversu fjarri lagi kenningar bílaandstæðinga og háskattasinna eru. Í töflunni hér að neðan má sjá þróunina í tekjum ríkisins af bílum og hversu hátt hlutfall þessara tekna fer í vegagerð.

1994

1995

1996

1997

1998

1999

2000 (áætlun)

2001 (spá)

Tekjur ríkisins af bifreiðum 16.941 18.660 21.509 24.140 26.293 29.313 30.032 28.224
Útgjöld til vegamála sem % af bifreiðasköttum 44,1% 41,8% 33,4% 30,4% 29,3% 29,2% 32,6% 42,5%

Eins og sjá má hér að ofan liggur hlutfallið síðastliðin á bilinu 29-44%, sem þýðir með öðrum orðum að öll árin hefur minnihluti teknanna farið í þjónustu við bíleigendur, en meirihluti stundum yfir 70% í eitthvað allt annað.

Það sem er hvað athyglisverðast er að þegar rýnt er nánar í töfluna má reikna út að síðustu átta árin hefði mátt fella niður aðflutningsgjöld af bifreiðum, hjólbörðum, varahlutum, tolla, vörugjöld og bensíngjald af bensíni og þungaskatt af bifreiðum, og samt hefðu bíleigendur greitt meira en allan kostnað við vegagerð ríkisins. Þetta hljómar vissulega ótrúlega miðað við málflutning bílaandstæðinga og háskattasinna, en þessir útreikningar sýna að síðustu átta árin fóru að meðaltali rúm 35% af tekjum ríkisins af bílum í vegagerð og á sama tíma námu virðisaukaskattur og aðrir skattar og gjöld en nefnd eru hér að ofan um 42% af tekjunum. Þetta þýðir með öðrum orðum að fella mætti niður nær alla aukaskatta og aukagjöld sem lögð eru á bíleigendur og samt sem áður myndu þeir standa undir kostnaði við vegagerð og vel það.