Þriðjudagur 25. september 2001

268. tbl. 5. árg.

„Verðið var ekki of hátt“ og  „verðið var mjög sanngjarnt“ heyrist nú frá þeim sem reyndu að selja almenningi hlutabréf í Landssímanum í síðustu viku. Að vísu voru fáir sammála þeim um að verðið væri sanngjarnt eins og þátttakan eða þátttökuleysið ber með sér. Svo einfalt er það. Ríkið var einfaldlega of gráðugt en núverandi fjármálaráðherra virðist hafa það eina markmið að slá met í tekjuöflun og eyðslu. Þó á hann sjálfur öll met í þessum greinum. Almenningur er ef til vill ekki spenntur fyrir því að kaupa hlutabréf á uppsprengdu verði af ríkinu jafnvel þótt menn eigi þá kost á að fá afslátt vegna hlutbréfakaupa af uppsprengdum sköttunum. Réttast væri að gefa almenningi þau bréf sem seldust ekki í síðustu viku. Ríki sem tekur á sig 2700 milljarða króna ábyrgð ætti að geta séð af hlutabréfum upp á 10 milljarða.

Það sem kemur hins vegar á óvart er að stjórnarandstaðan gagnrýnir verðlagninguna. Hverjir hafa grenjað úr sér augun yfir því að ríkisfyrirtæki hafi verið „færð gæðingum á silfurfati“ eða „gefin einkavinum ríkisstjórnarinnar“? Að vísu hafa þessir „einkavinir ríkisstjórnarinnar“ stundum skipt tugum þúsunda. Stjórnarandstæðingarnir hafa ekki viljað „selja bestu mjólkurkýrnar“. Nú telja þeir að of hátt verð hafi verið sett á símabeljuna. Það er auðvitað erfitt að koma því heim og saman að eitthvað sé gefið á of háu verði.

Í flestum tilvikum hafa svo ríkisfyrirtæki – eins og Póstur og sími, RÚV og ÁTVR – frekar verið mjaltavélar en mjólkurkýr. Það eru viðskiptavinirnir, almenningur, sem leggja til spenana. Ríkisfyrirtæki hafa í flestum tilvikum verið alræmd fyrir lélega þjónustu á háu verði. Muna menn eftir því þegar ein tegund af símtækjum var í boði og aðeins 2 metra símasnúra? Að vísu var síðar boðið einnig upp á 6 metra snúru til svara kröfum viðskiptavina. Muna menn eftir sjónvarpslausum júlí og fimmtudögum? Muna menn eftir því að hafa ekki verið hleypt í hillurnar í ÁTVR?