Miðvikudagur 26. september 2001

269. tbl. 5. árg.

Eins og menn rekur sjálfsagt minni til fullyrtu ýmsir að embætti Bandaríkjaforseta hefði verið „stolið“ þegar hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp úr um að úrslitin í Flórída skyldu standa og Bush fékk alla kjörmenn ríkisins og varð forseti. Meðal þeirra var Gerald Posner rithöfundur en ein af bókum hans er Case Closed: Lee Harvey Oswald and the Assassination of JFK. Í grein í Wall Street Journal í gær segir Posner frá því hvernig hann brást við fyrir tíu mánuðum þegar úrslit lágu fyrir í forsetakosningunum.

Grein Posners ber titilinn „I was Wrong About Bush“ og þar segir: „Ég hélt því ekki aðeins fram við vini og kunningja að forsetaembættinu hefði verið stolið og Gore yrði betri forseti en Bush. Ég var einn þeirra sem af yfirlæti ritaði undir hið heilsíðuauglýsingu í New York Times frá „Emergency Committee of Concerned Citizens 2000“ þar sem krafist var endurtalningar í Palm Beach sýslu. Ég skrifaði greinar í Salon.com og New York Daily News. Ég talaði máli Gore í ýmsum umræðuþáttum í sjónvarpi og í mörg þúsund bréfum í tölvupósti hvatti ég fólk til að krefjast endurtalningar.
Að sjálfsögðu hafði ég ekki hugmynd um hvort Gore eða George W. Bush hefði í raun sigrað. Það skipti mig, dyggan flokksmanninn, ekki máli. Ég var sannfærður um að Gore væri besti maðurinn í starfið og hæfastur til að stjórna Bandaríkjunum. Bush var hins vegar óreyndur við landsstjórnina og mér fannst hann skorta þá eiginleika og gáfur sem góður leiðtogi þarfnast.“

Posner segir að frammistaða Bush frá því illvirkin voru framin 11. september hafi sýnt og sannað að hann hafi haft rangt fyrir sér um Bush. Ræða hans í þinginu hafi verið einstök, ekki síst vegna þess að Bush hafi fram til þessa ekki verið talinn til bestu ræðumanna. Posner heldur svo áfram: „Á þessari stundu hefur hann gert marga fyrrum andstæðinga sína að stuðningsmönnum sínum og hann verðskuldar fullan stuðning okkar. Ríkisstjórn hans með Colin Powell, Donald Rumsfeld og Dick Chaney innanborðs er líklega hæfari en nokkur ríkisstjórn sem Gore hefði getað komið saman til að takast á við verkefnin framundan. Því miður verð ég að viðurkenna að Bill Clinton sem ég kaus tvisvar sem forseta hefði ekki getað flutt jafn skarpa ræðu og Bush. Hann hefði sem fyrr reynt að gera alla ánægða og það hefði komið í veg fyrir að hann skýrði málin á eins skýran hátt og Bush.“

Greininni lýkur Posner á eftirfarandi orðum: „Ég sparaði ekki stóru orðin á síðasta ári þegar ég taldi rangan mann hafa verið kjörinn forseta. Ég verð að viðurkenna að ég hafði rangt fyrir mér. Besti maðurinn til að takast á við ógnina sem steðjar að okkur er forseti í dag. Mig grunar að margir félaga minna úr röðum demókrata séu sömu skoðunar.“