Föstudagur 31. ágúst 2001

243. tbl. 5. árg.

Doris Lessing nefnist kona nokkur og er meðal þekktari rithöfunda síðustu aldar. Einkum hafa svo nefndir femínistar mjög haft hana í hávegum og sérstaklega flaggað einni af hennar þekktustu bókum, The golden notebook, sem út kom árið 1962. Lessing er nú 81 árs gömul en hvorki dauð úr öllum æðum né þögnuð. Í næsta mánuði verður nýjasta bók hennar, The sweetest dream, gefin út og af því tilefni hefur Lessing talsvert verið í breskum fjölmiðlum. Ekki er þó víst að allt sem hún segir muni falla í góðan jarðveg hjá hennar hörðustu aðdáendum. En aðrir verða þá kannski hrifnari.

Ef að þær í forystu kvennahreyfinganna hafa hlaupið til og lesið nýjustu viðtölin við Doris Lessing upp til agna, í þeirri von að finna þar hrós um sig og stuðning við sinn málstað, ja þá hafa þær aldeilis gripið í tómt. Lessing er nefnilega hreint ekki hrifin af þeim. Og hún er meira að segja ekki heldur sérstaklega bergnumin af þeim konum sem „ruddu brautina“ í þeirri baráttu fyrir nokkrum áratugum. „The great figures of that time do have a pretty exhibitionist streak“ segir Doris Lessing og bætir við að þeir tímar hafi verið að þær hafi verið svo merkilegar með sig að þær hafi ekki getað sagt nokkurn hlut án þess að níða karlmenn niður í leiðinni. Þetta hafi verið trúarbrögð. Þær hafi átt sína trú og við henni hafi ekki mátt blaka. Og nú telur Doris Lessing að það séu karlmenn sem ekki séu metnir að verðleikum.

Og Tony Blair, hann fær einkunn sem hvorki verður misskilin né þarfnast þýðingar: „I find him uniquely smug… astonishingly dishonest.“

Eins og áður sagði hefur mikið verið látið með hennar þekktustu bók, The golden notebook, og það jafnvel meira og á annan hátt en höfundurinn hefur óskað eftir. Doris Lessing segir svo frá að hún hafi jafnvel lent í því að deila um efni bókarinnar við sænskan femínista og hafi deilan sífellt orðið heiftúðugri þar til sú sænska hefði öskrað: „Þetta er mín bók. Hvað þykist þú vera, að reyna að segja mér til um hana?“

Í væntanlegri bók sinni, sem er í skáldsöguformi þótt aðalpersónunni svipi mjög til Lessing sjálfrar, segir hún skoðun sína á hinu og þessu. Hún segist til dæmis hafa miklar áhyggjur af fíkniefnum og nefnir sérstaklega skaðleg áhrif kannabisefna á heilann. En bætir við: „En á hinn bóginn þá er ég á móti því að banna hluti. Ég er ekki frá því að það séu góð rök fyrir því að afnema fíkniefnabannið. Það yrðu endalok fíkniefnasalanna.“