Þorgeir Þorgeirsson, spekingur, rithöfundur og mannréttindafrömuður, skrifar eina af sínum rómuðu greinum um stjórnarskrá lýðveldisins í Morgunblaðið síðastliðinn föstudag. Greinin ber nafnið „Hvar fæ ég þessa helv stjórnarskrá keypta“ og fjallar um þá ósvinnu að stjórnarskrá íslenska lýðveldisins sé, eins og Þorgeir orðar það, „eitt best varðveitta leyndarmál ríkisins.“ Og til að sanna leyndarhjúpinn nefnir Þorgeir eitt og annað:
„Texta stjórnarskrárinnar er ekki að finna í heilu lagi á heimasíðu Alþingis. Hvergi heldur á heimasíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.“
„Bókabúðarfólk rekur upp stór augu ef spurt er um prentaða útgáfu af stjórnarskránni. Enda mun stjórnarskráin hvergi vera kennsluefni í barna- eða framhaldsskólum landsins. Og það hef ég sannreynt að stjórnarskrárþekking venjulegs bandarísks grunnskólanemanda er víðtækari en samanlögð vitneskja alþingismanna okkar um það efni.“
Og Þorgeir fer fram á að stjórnarskráin verði sett inn á heimasíðu Alþingis og lætur í ljós þá von að ef „einhver bókaútgefandi vildi sinna þessum nývaknaða áhuga almennings myndi hann/hún vonandi fá góðfúslegt leyfi almennings til að prenta þennan mikilvæga texta og selja vægu verði í öllum bókaverslunum landsins.“
Við þessi spaklegu orð Þorgeirs er fáu að bæta. Nema helst eftirfarandi:
Stjórnarskráin er birt á heimasíðu Alþingis. Stjórnarskráin er einnig birt á heimasíðu stjórnarráðsins.
Nemendum í framhaldsskólum er kennd stjórnarskráin. Hún er hins vegar sjálfsagt ekki kennd að ráði í barnaskólum.
Ekki er hins vegar gott að dæma um þá hógværu fullyrðingu spekingsins þess efnis að „stjórnarskrárþekking venjulegs bandarísks grunnskólanemanda [sé] víðtækari en samanlögð vitneskja alþingismanna okkar um það efni.“ Til þess eru handbærar upplýsingar um samanlagða vitneskju íslenskra alþingismanna ekki nægilega ýtarlegar en kannski eru bandarískir grunnskólanemendur svo vel að sér að engu skipti hve mikið íslenskir alþingismenn vita samanlagt. Hvernig sem það nú annars er, þá má ganga út frá því sem vísu að Þorgeir hafi „sannreynt“ þessa fullyrðingu sína.
Forsætisráðuneytið hefur lengi selt stjórnarskrána í sérprenti, lengi vel kostaði prentið 100 krónur. Vaka-Helgafell gaf stjórnarskrána út fyrir nokkrum misserum og seldi, reyndar á talsvert hærra verði, og var sú útgáfa til sölu í flestum eða öllum bókaverslunum.