Fimmtudagur 30. ágúst 2001

242. tbl. 5. árg.

„Fólk veit ekkert hvað það er að láta ofan í sig. Þetta er ólögleg framleiðsla, það er ekki neinn gæðastaðall á henni“ sagði Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóranum í fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Yfirlögregluþjónninn var þangað kominn til að vara áhorfendur við að taka inn nýja gerð af svo kallaðri „e-pillu“ sem sögð var hafa valdið usla og manntjóni í Belgíu. Nú er spurning hvort fólk hefur hoggið eftir sannindunum sem felast í orðum lögregluþjónsins eða hvort það hefur einungis heyrt þau orð að hættuleg pilla væri komin á markað í Belgíu. En orð Guðmundar minna á eitt af því sem Vefþjóðviljinn hefur áður sagt um fíkniefnamál: Svo lengi sem einhver vill neyta fíkniefna þá verða þau framleidd, seld, keypt og tekin inn. Og svo lengi sem fíkniefni eru „ólögleg framleiðsla“ þá verða neytendurnir að taka þá áhættu að á þeim verður „enginn gæðastaðall“. Þeir munu taka því sem býðst án þess að vita nákvæmlega hvað það er sem þeir láta ofan í sig.

Það eru ekki allir eins. Nú hafa „Náttúruverndarsamtök Íslands“, það er að segja Árni Finnsson og félagar, „kært“ til umhverfisráðherra nýfallinn úrskurð skipulagsstjóra ríkisins um hugsanlega Kárahnjúkavirkjun og krefjast þess í kærunni að úrskurðurinn verði … staðfestur. Af þessu tilefni vill Vefþjóðviljinn taka eftirfarandi fram: Vefþjóðviljinn hefur í hyggju að kæra „Náttúruverndarsamtök Íslands“ fyrir ýmis brot á hegningarlögum, en ekki til sakfellingar heldur til sýknu. Vefþjóðviljinn mun krefjast þess að samtökin verði með öllu sýknuð af kröfum Vefþjóðviljans og verður mál þetta væntanlega þingfest fyrir héraðsdómi á næstu dögum. Þegar dómur hefur fallið og „Náttúruverndarsamtök Íslands“ hafa verið sýknuð, þá munu þau svo áfrýja eigin sýknu til Hæstaréttar og krefjast þess að hún verði staðfest. Að því búnu munu þau halda baráttunni áfram fyrir mannréttindadómstóli Evrópu.