Fimmtudagur 16. ágúst 2001

228. tbl. 5. árg.

Eins og lesendum Vef-Þjóðviljans er kunnugt kom út bók eftir Björn Lomborg á íslensku í fyrra. Í bókinni Hið sanna ástand heimsins hrekur hann ýmsar hrakspár umhverfisverndarsinna. Nú er bókin væntanleg á ensku undir nafninu The Skeptical Environmentalist: Measuring the Real State of the World. Að því tilefni fékk tímaritið The Economist Lomborg til að greina frá innihaldi bókarinnar í grein sem birtist 2. ágúst.

Í greininni tekur Lomborg fjórar staðleysur umhverfisverndarsinna fyrir, en þeir hafa meðal annars haldið eftirfarandi fram:

  1. Náttúruauðlindir eru að tæmast.
  2. Fólki hefur aldrei fjölgað hraðar og við höfum minna til hnífs og skeiðar en áður.
  3. Tegundum fækkar með ógnarhraða, skógar eru að hverfa og fiskistofnar að hrynja.
  4. Við erum sífellt að menga vatn og loft jarðar meira.

Eins og Lomborg rekur í greininni fær ekkert af þessu staðist nánari skoðun. Hráefni og matur hafa hríðfallið í verði síðustu áratugi enda aldrei verið framleidd meiri næring á mann en nú og þó fækkun tegunda sé til staðar þá sé hún stórlega ýkt og sömu sögu má segja af mengun vatns og andrúmsloftsins. Lomborg veltir því eðlilega fyrir sér hvernig standi á því að allar þessar dómsdagsspár komast í umferð og verða að heilögum sannleik í meðförum fjölmiðla.

Í fyrsta lagi nefnir hann að framlög til rannsókna fari einkum til rannsókna á vandamálum, sem sé út af fyrir sig gott, en gefi til kynna að fleiri vandamál séu til staðar en raunin sé. Í öðru lagi þurfi umhverfisverndarsinnar að fanga athygli fjölmiðla og til þess sé stundum notuð skreytni. Fjölmiðlar vilji sömuleiðis ná athygli almennings og slæmar fréttir séu góðar fréttir fyrir áhorf og athygli. Lomborg nefnir svo að lokum einstaklingsbundna skynjun en fólk telji til dæmis stundum að þar sem allir eru alltaf að henda frá sér rusli munum við á endanum drukkna í sorpi. Engu að síður sé það staðreynd að þótt Bandaríkjamönnum muni fjölga um 100% til ársins 2100 muni allt það sorp sem Bandaríkjamenn láta frá sér rúmast á svæði sem er 28 kílómetrar á kant. Það er einn tólfþúsundasti af flatarmáli Bandaríkjanna.